Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
11. nóvember 2018

Enginn veit hvort fimm eldislaxar

Eftirlitsstofnunin Matvælastofnun veit ekki og getur ekki sannreynt hversu margir norskir eldislaxar sluppu úr eldiskví laxeldisfyrirtækisins Arnarlax í Tálknafirði í júlí í sumar. Göt mynduðust þá á eldiskví Arnarlax sem í voru rúmlega 150 þúsund eldislaxar. Tæplega fimm þúsund færri fiskar voru í kvínni þegar slátrað var úr henni í byrjun október en áttu að vera í kvínni. Þetta kemur fram í svörum frá Matvælastofnun við spurningum Stundarinnar um slysasleppinguna. 

 

Sú staðreynd að Matvælastofnun, eftirlitsstofnunin sem fylgist með slíkum atriðum í starfsemi laxeldisfyrirtækjanna, getur ekki fullyrt nokkuð um umfang slysasleppingarinnar á norsku eldislöxunum undirstrikar þá mögulegu umhverfisvá sem fylgir notkun á opnum sjókvíum til að rækta eldisfiska við Íslandsstrendur. 

Arnarlax tilkynnti stofnunininni að tæplega fimm þúsund færri eldislaxar hefðu verið í kvínni við slátrun úr henni en ætlað var og segir í frétt á heimasíðu Matvælastofnunar að fyrirtækið sjálft meti það sem svo að um 300 norskir eldislaxar hafi sloppið úr kvínni. Á endanum þá er þetta mat fyrirtækisins bara mat og það er ekkert fast í hendi um hvort það er rétt eða ekki. 

„Matvælastofnun metur áreiðanleika gagna fyrirtækisins“

 

Sluppu 5.000, 10.000 eða jafnvel 15.000 laxar?

Þetta vandamál í notkun opinna sjókvía í laxeldi er landlægt alls staðar í heiminum þar sem notast er við opnar sjókvíar. Eftirlitsstofnanir með laxeldi fá tölur um slysasleppingar frá laxeldisfyrirtækjunum sjálfum sem að sjálfsögðu hafa hagsmuni af því að tölur um mögulegar slysasleppingar séu sem lægstar, samanber uppgefna tölu um að einungis 300 eldislaxar hafi sloppið úr kví Arnarlax jafnvel þótt tæplega 5000 laxa hafi vantað í kvína í Tálknafirði þegar slátrað var úr henni. 

 

Stundin spurði Matvælastofnun að því hvaða forsendur stofnunin hefði til að meta sannleiksgildi þeirra talna sem Arnarlax sendi henni. „Hvaða forsendur hefur MAST til þess að taka mark á upplýsingagjöf frá Arnarlaxi um slysasleppingar? Hefur átt sér stað einhvers konar rannsókn eða gagnrýnin rýni í málið hjá MAST eða er um að ræða tölur frá Arnarlaxi sem MAST endurbirtir með eigin orðalagi? Hvernig veit MAST að það voru ekki 5.000, 10.000 eða 15.000 færri fiskar í kvínni en hermt er?“

 

Í svarinu segir Erna Karen Óskarsdóttir, eini starfsmaðurinn hjá Matvælastofnun sem sinnir laxeldi sem málaflokki – eftirliti og allri stjórnsýslu – að upplýsingagjöf stofnunarinnar byggi á gögnum frá laxeldisfyrirtækjunum: „Matvælastofnun berast upplýsingar frá fyrirtækinu um fjölda fiska sem settir eru í kvíar, afföll fiska og sláturtölur. Matvælastofnun metur áreiðanleika gagna fyrirtækisins, og fyrirtækja almennt, út frá gögnum sem stofnunin hefur undir höndum úr eigin eftirliti. Skv. lögum um fiskeldi kemur fram að það varði stjórnarmenn og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa sektum og fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar, ef fiskeldisstöðvar gefa ekki lögboðnar skýrslur um starfsemi sína eða veita eftirlitsmönnum rangar upplýsingar.“

 

Á endanum snýst eftirlit Matvælastofnunar því um það að laxeldisfyrirtækin starfi í góðri trú og greini satt og rétt frá þegar eldislaxar sleppa úr kvíum þeirra. Þetta eftirlit má kannski bera saman við það ef Fjármálaeftirlitið myndi sinna sínu eftirlitshlutverki þannig að það byggði nær eingöngu á upplýsingum frá bönkunum sjálfum sem stofnunin á að sinna eftirliti með. 

 

Lærdómurinn frá Noregi

Í Noregi, því landi í heiminum sem framleiðir mest allra af eldislaxi, eru slysasleppingar stórt vandamál sem leitt hefur til mikillar erfðablöndunar við villta norska laxastofna. Það skal undirstrikað að Noregur framleiðir um 1,3 milljónir tonna af eldislaxi á meðan Íslendingar hafa framleitt á milli 10 og 20 þúsund tonn þannig að iðnaðurinn er miklu stærri í Noregi þar sem framleiðslan er um 100 sinnum meiri. 

 

Í Noregi er einnig ómögulegt að vita í reynd hversu margir eldislaxar sleppa úr sjókvíum þar við land, eins og norska blaðakonan Kjersti Sandvik ræðir um í bók sinni um laxeldi þar í landi, Undir yfirborðinu: „Opinber tölfræði um fjölda eldislaxa sem sleppur úr sjókvíum þar við land er miklum vafa undirorpin.  Hafrannsóknastofnun telur að á hverju ári sleppi um 1,5 milljón eldislaxa, þar með talið laxaseiði sem sleppa þegar þeim er komið fyrir í kvíunum. Samkvæmt norsku náttúruverndarsamtökunum koma um 450 þúsund villtir laxar úr sjónum og upp í norskar ár. Þeir laxar sem sleppa ár hvert eru því um þrisvar sinnum fleiri en fjöldi villtra laxa sem kemur upp í norskar ár. Mikið af þessum eldislaxi sem sleppur fer upp í norskar ár og skapar vandamál fyrir villta laxastofna.“

 

Aukið laxeldi en bara einn starfsmaður í eftirliti

Enn sem komið er hefur ekki verið fundin upp tækni sem kemur alfarið, eða nær alfarið, í veg fyrir slysasleppingar á eldislaxi úr sjókvíum. Tæknin í sjókvíaeldinu verður sannarlega betri og má til dæmis nefna að opinberar tölur frá Noregi sýna fækkun á ætluðum slysasleppingum á eldislaxi, en slysasleppingar eru ennþá miklar: 144 þúsund laxar það sem af er ári samkvæmt norsku hafrannsóknastofnuninni.

 

Hvergi er það heldur svo að eftirlitsstofnanir í fiskeldi geti sannreynt með vissu hvort upplýsingagjöf laxeldisfyrirtækjanna um slysaleppingarnar er rétt og fyrir liggur að eldisfyrirtækin hafa hagsmuni af því að þessar tölur séu sem lægstar. 

 

Á Íslandi, á sama tíma og laxeldisfyrirtækin vilja allt að tífalda framleiðsluna á eldislaxi, er enn sem komið er bara einn starfsmaður sem sinnir þessum stækkandi málaflokki hjá Matvælastofnun. Stofnunin telur að þetta sé ekki nóg og hefur farið fram á að fleiri starfsmenn verði ráðnir til að sinna þessu eftirliti. „Að mati Matvælastofnunar þarf aukið fjármagn til að ráða inn starfsfólk til þess að sinna bæði stjórnsýslu og eftirliti rekstrarleyfa með fiskeldi, en í dag sinnir einn starfsmaður þessum málaflokki. Stofnunin hefur vakið athygli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á þessari stöðu og liggur málið hjá þeim,“ segir í svarinu frá Ernu Karen. 

 

Fleiri starfsmenn munu því hugsanlega bætast við hjá Matvælastofnun til að sinna þessu eftirliti en þó af þessu verði þá verður samt sem áður enn þá erfitt fyrir stofnunina að sannreyna réttmæti upplýsinga sem berast frá laxeldisfyrirtækjunum um slysasleppingar og þar af leiðandi mun enn þá verða örðugt um vik að fullyrða nokkuð um fjölda slysasleppinga á norskum eldislaxi á Íslandi. 

 

Þessa grein eftir Inga Frey Vilhjálmsson er að finna á vefnum Stundin.is. Hér er að finna mismunandi áskriftarleiðir að vefmiðlinum Stundin.is