Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
25. október 2018

Veiðitölur 2018

Veiðar í þeim ám sem nær alfarið byggja á seiðasleppingum voru stundaðar vel fram í október en síðustu árnar lokuðu 20 október. Alls hafa nú borist lokatölur úr samtals 46 ám/veiðisvæðum en staðfestar lokatölur hafa ekki borist úr nokkrum ám en þær verða birtar um leið og þær berast. Hér er hægt að skoða allan listann þar sem er að finna veiðitölur úr um 50 ám/veiðisvæðum. 

 

Áhugavert er að skoða lokatölur úr þeim ám er lokuðu 20 október.

 

Efst á listanum er Ytri-Rangá en þar veiddust alls 4032 laxar á þessu veiðitímabili en til samanburðar þá veiddust alls 7451 laxar árið 2017. Ef veiðitölur eru skoðaðar síðustu tólf árin þá var mesta veiðin árið 2008 en það ár veiddust 14315 laxar. Minnsta veiðin var árið 2014 en þá veiddust 3063 laxar.

 

Eystri-Rangá er í öðru sæti með alls 3960 laxa sem er 1817 löxum meiri veiði miðað við árið 2017 en þá veiddust 2143 laxar sem var minnsta veiði síðast liðin tólf ár. Mest var veiðin árið 2007 en þá veiddust 7473 laxar.

 

Affall í Landeyjum lokaði með alls 872 löxum en það er 679 löxum meiri veiði en árið 2017, þá veiddust 193 laxar sem var minnsta veiði undanfarin átta ár. Þetta er næstbesta veiði síðustu átta árin en árið 2010 veiddust 1021 laxar.

 

Veiði í Þverá í Fljótshlíð gekk mjög vel þetta veiðitímabilið en samtals veiddust 499 laxar. Það er mesta veiði undanfarin átta ár en minnst var veiðin árið 2011 samtals 119 laxar.

 

Þess má geta að veiðibækur fara til ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar þar sem þær eru vandlega yfirfarnar, unnið úr upplýsingum og þær skráðar. Endanlegar veiðitölur eru síðan gefnar út í árlegri skýrslu sbr. Lax- og silungsveiðin 2017 sem má nálgast hér sem pdf-skjal. 


Þetta er nefnt sökum þess að af fenginni reynslu þá hafa yfirfarnar veiðitölur verið í sumum tilvikum aðeins lægri en samantekt okkar hér á vefnum. Ekki munar þar miklu en best er að treysta endanlegum tölum frá ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar enda búið að fara vel og vandlega í gegnum þær. En þangað til að þær upplýsingar berast þá getum við notast við þá söfnun veiðitalna sem hér er og þær upplýsingar ættu ekki að breytast mikið.

  

Söfnun veiðitalna væri ekki möguleg nema fyrir liðsinni fjölda aðila sem vikulega taka saman veiðitölur. Kærar þakkir fyrir ykkar liðsinni í veiðitölusöfnun