Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
17. október 2018

Nýjar veiðitölur

Nú eru aðeins nokkrir dagar þangað til síðustu vatnakerfin loka en það eru þau sem nánast alfarið byggja á seiðasleppingum. Um ræðir Ytri-Rangá, Eystri-Rangá, Affall í Landeyjum og Þverá í Fljótshlíð. Veiðitími fyrir lax er til 30. september ár hvert og er því lokið fyrir 2018, sbr. 17. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. En þess má geta að Fiskistofa getur heimilað veiðar utan þessa veiðitíma ef skilyrði eru fyrir slíkri hliðrun og þau skilyrði uppfylla ofangreindar ár sem byggja nánast alfarið á seiðasleppingum. Alls hafa nú borist lokatölur úr samtals 41 ám/veiðisvæðum en staðfestar lokatölur hafa ekki borist úr nokkrum ám en þær verða birtar um leið og þær berast. Hér er hægt að skoða allan listann þar sem er að finna veiðitölur úr um 50 ám/veiðisvæðum.

 

Í samantekt veiðitalna í síðustu viku voru Eystri- Rangá og Ytri-Rangá nánast jafnar og einungis 19 laxar skildu þar á milli. Nú ber svo við að Ytri-Rangá er komin í efsta sætið eftir 90 laxa veiðiviku og veiðin komin í 4000 laxa. Skammt undan er Eystri-Rangá með 3958 laxa en síðasta veiðivika skilaði 29 löxum.

 

Í Affalli í Landeyjum er veiðin komin í alls 868 laxa og er það margfalt meiri veiði samanborið við veiði í fyrra en þá var lokatalan 193. Í Þverá í Fljótshlíð er veiðin komin í alls 499 laxa en það er 51 laxi meira en lokatalan í fyrra var 448 laxar.   

 

Þess má geta að veiðibækur fara til ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar þar sem þær eru vandlega yfirfarnar, unnið úr upplýsingum og þær skráðar. Endanlegar veiðitölur eru síðan gefnar út í árlegri skýrslu sbr. Lax- og silungsveiðin 2017 sem má nálgast hér sem pdf-skjal. 


Þetta er nefnt sökum þess að af fenginni reynslu þá hafa yfirfarnar veiðitölur verið í sumum tilvikum aðeins lægri en samantekt okkar hér á vefnum. Ekki munar þar miklu en best er að treysta endanlegum tölum frá ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar enda búið að fara vel og vandlega í gegnum þær. En þangað til að þær upplýsingar berast þá getum við notast við þá söfnun veiðitalna sem hér er og þær upplýsingar ættu ekki að breytast mikið.

  

Söfnun veiðitalna væri ekki möguleg nema fyrir liðsinni fjölda aðila sem vikulega taka saman veiðitölur. Kærar þakkir fyrir ykkar liðsinni í veiðitölusöfnun