Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
13. október 2018

Þetta snýst um Ísland

Það var árið 1876 sem fyrsti laxveiðitúristinn kom til Íslands til að veiða sér til yndisauka á stöng með flugu sem agn. Síðan hafa óteljandi áhugasamir veiðimenn af öllum stærðum og gerðum fylgt í kjölfar hans.

 

Í umræðu um laxeldi hafa laxeldissinnar hamast á stangveiðimönnum og reynt að slá ryki í augu fólks með því að kalla þá auðmenn og eitthvað álíka. Þeir vilja fá fólk til að trúa því að þetta séu vondir kapítalistar í 101 Reykjavík sem séu á móti landsbyggðinni og allir séu þeir milljónerar. Mér er sönn ánægja að því að upplýsa hvernig ég fjármagna að mestu veiði mína. Ég var stórreykingamaður en ákvað að hætta að reykja og setti peningana í veiðileyfi í staðinn. Hvað reykti ég mikið? spyrð þú. Um það bil tvo pakka á dag svo ég ákvað setja í bauk andvirði tveggja pakka á dag. Pakkinn er á tólf hundruð krónur sem gerir á ári í kringum 870.00 kall – og þetta eru bestu skipti sem hægt er að hugsa sér. 

 

Það er greinilega hernaðaráætlun hjá eldismönnum að fjölyrða um auðmenn til að fá samúð og geta beitt fólkinu í fjörðunum fyrir vagninn sinn. Alþekkt bragð sem hefur heppnast: við á móti landsbyggðinni. En staðreyndin er sú að á Íslandi eru fimmtán hundruð lögbýli, venjulegt fólk, bændur og búalið, sem hafa beint eða óbeint tekjur af laxveiði. Þar fyrir utan byggja fjöldamargir afkomu sína á laxveiði, til dæmis þeir sem reka verslanir sem eru sérhæfðar í veiðivörum og hundruð manna sem vinna við leiðsögn eða í veiðihúsum og þjónusta veiðimenn. Laxveiðihlunnindi eru ein elsta ferðaþjónustugrein á Íslandi. Á Vestfjörðum eru um þrjú hundruð manns allt í allt sem mögulega vinna við fiskeldið. Ókei, er það þá þannig að hagsmunir þeirra vegi þyngra en þeirra tvö þúsund sem búa á lögbýlum? Eða hvernig má skilja þetta?

Andstaða eldismanna gegn laxeldi í lokuðum kvíum og landeldi stafar af því að eigendur fyrirtækjanna eru Norðmenn sem eru að flýja íþyngjandi reglur heima fyrir og þeir sjá bara eitt: gróða. Sama hvað.

 

Við sjáum fréttir um að það sé verið að leggja byggðir landsins í eyði með því að leyfa ekki laxeldi í opnum kvíum. Þetta er einfaldlega rangt. Fyrir það fyrsta þá vita menn upp á sig sökina. Stöðnunin fór af stað fyrir langa löngu þegar kvótinn var tekinn frá þorpunum eða seldur norður. Menn fara síðan í þorpin núna og lofa gulli og meira gulli og trekkja upp væntingar en það er ljótur leikur. Þeir segja bara hálfan sannleikann og nefna ekki að þessir risar sem eiga stærstan hluta í eldinu munu fara með gróðann burt. Það er skammarlegt að Norðmenn skuli eiga nánast allt eldi á Íslandi og ef við tölum líkt og ráðherrar þá eiga þeir 84 prósent í auðlindinni okkar – auðlind okkar allra.

 

Við erum ein þjóð, eitt land, og ég held að ég geti talað fyrir munn nánast allra Íslendinga þegar ég segi að enginn vilji að landsbyggðin verði lögð í eyði. Ég átti sjálfur mín bestu ár við störf úti á landi. En okkur ber skylda til þess að skila landinu til afkomenda okkar í sæmilegu ásigkomulagi. Þetta snýst ekki um stangveiði, þetta snýst um landið okkar, náttúru þess. Og villta laxastofninn.

 

Laxeldi er mengandi stóriðnaður og skilur eftir sig eyðileggingu á lífríkinu, haf fullt af eitri, drullu og viðbjóði. Eina lausnin er laxeldi á landi eða í lokuðum kvíum annars verður aldrei friður. Við getum orðið fyrirmynd annarra þjóða í sambandi við laxeldi.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum DV.is