Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. september 2018

Leyfi fyrir 17.500 tonna laxeldi ógilt

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í dag úr gildi tvö rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gaf út til laxeldis í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi og Arctic Sea leyfi til að framleiða samanlagt 17.500 tonn af laxi árlega. Úrskurðarnefndin umhverfis- og auðlindamála komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að matsskýrslur sem fyrirtækin lögðu fram væru ekki lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. 

 

Það var vegna þess að ekki var fjallað um aðra valkosti við þá leið sem fyrirtækin vildu fara. Nefndin sagði slíka galla á matsskýrslum sem fyrirtækin skiluðu inn til Matvælastofnunar að stofnuninni hefði borið skylda til að tryggja að atriði málsins væru nægilega upplýst. 
 

Náttúruverndarsamtök og veiðiréttarhafar á Vestfjörðum kærðu útgáfu rekstrarleyfanna og töldu að útgáfan stæðist ekki lög. Kærendur töldu að umhverfismat fyrir framkvæmdunum væru ófullnægjandi þar sem ekki væri fjallað um aðra valkosti, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum eða minna sjókvíaeldi. 

 

„Ljóst er að framkvæmdaraðili kaus að leggja einungis einn valkost framkvæmdar fram til mats á umhverfisáhrifum og að við það var ekki gerð athugasemd af hálfu Skipulagsstofnunar. Í trássi við lög var ekki á neinu stigi málsmeðferðarinnar gerð gangskör að því að greina frekari valkosti og bera umhverfisáhrif þeirra saman við umhverfisáhrif aðalvalkosts framkvæmdaraðila,“ segir í niðurstöðu úrskurðarnefndar um rekstrarleyfi Fjarðarlax.

 

Í umfjöllun sinni um rekstrarleyfi Arctic Sea Farm segir nefndin: „Verður ekki við það unað í mati á umhverfisáhrifum að einungis séu metin umhverfisáhrif eins valkosts. Fer enda þá ekki fram sá nauðsynlegi samanburður umhverfisáhrifa fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að fullrannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is

 

Hér er hægt að sækja úrskurð nefndarinnar. Pdf-skjal.