Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
27. september 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 26. september. Nú loka árnar ein af annari og lokatölur berast í kjölfarið. Á veiðitölulista okkar eru um 50 mismunandi vatnakerfi og meirihluti skilar inn vikulegum veiðitölum yfir veiðitímabilið. Nú hafa borist lokatölur úr 20 ám/veiðisvæðum og má gera ráð fyrir að lokatölur berist úr flestum þeirra á næstu dögum.

Hinsvegar má geta þess að veiðar í þeim ám sem byggja á seiðasleppingum verða stundaðar vel fram í október. Það er því hægt er að stunda laxveiðar áfram í þónokkrum ám þetta veiðitímabilið.

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum ám og í sumum tilvikum skýrist það af því að veiðihús hafa lokað og fyrir vikið er minni viðvera og tækifæri að sækja upplýsingar úr veiðibók/veiðibókum. En tölur skila sér að lokum og verða þær settar inn um leið og þær berast. 

 

Röð efstu ánna breyttist aðeins milli vikna en sem fyrr eru Rangárnar í efstu tveimur sætunum. 

 

Í efsta sæti er Eystri-Rangá með 3800 laxa og skilaði síðasta veiðivika 67 löxum. Veiðin á svipuðum tíma í fyrra var 2041 laxar og er veiðin nú er því orðin 1759 löxum meiri en í fyrra.

 

Ytri-Rangá er í öðru sæti og sækir á Eystri-Rangá, munar nú einungis 58 löxum en veiðin er komin í alls 3742 laxa og gekk ágætlega í síðustu veiðiviku sem skilaði 149 löxum.

 

Miðfjarðará er í þriðja sæti á listanum og efst á lista náttúrulegu ánna, en veiði er nýlokið og lokatalan er 2719 laxar og skilaði síðasta veiðivika 117 löxum.

 

Þverá og Kjarará er í fjórða sæti, komin í 2455 laxa en veiði er lokið að undanskilinni Litlu Þverá og lokatölur berast um næstu mánaðarmót.

 

Norðurá er í fimmta sæti en lokatalan er 1692 laxar sem er örlítið minni veiði en í fyrra, lokatala árið 2017 var 1719 laxar og munar því einungis 27 löxum.

 

Langá færist upp um eitt sæti, þ.e. úr sjöunda sæti upp í sjötta sæti en þar er veiði nýlokið og lokatalan er 1635 laxar. Síðasta veiðivika skilaði 123 löxum. Ef veiðin nú er borin saman við veiðina í fyrra (Lokatala 2017 = 1701) þá munar einungis 66 löxum.

 

Haffjarðará er í sjöunda sæti með lokatöluna 1545 laxa sem er töluvert meiri veiði en í fyrra. Veiðin í fyrra skilaði 1167 löxum og er veiðin nú 378 löxum meiri þetta veiðitímabilið.

 

Selá í Vopnafirði er í áttunda sæti með lokatöluna 1340 laxa sem er umtalsvert meiri veiði en í fyrra eða sem nemur 403 löxum (Lokatala 2017 = 937 laxar).

 

Urriðafoss í Þjórsá er í níunda sæti með 1317 laxa. Veiðin nú er orðin 562 löxum meiri en lokatalan í fyrra. (Lokatala 2017 = 755 laxar). Þess ber að geta að nú er heimilt að veiða á fjórar stangir en í fyrr voru þær tvær.

 

Laxá í Dölum er í tíunda sæti með alls 1075 laxa sem 301 laxi meiri veiði en á svipuðum tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 774 laxar.

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám. Tölur verða settar inn þegar þær berast. Hér er hægt að skoða allan listann þar er veiðitölur eru frá um fimmtíu ám.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 3 október.

 

Hafa ber í huga að veiðitölur eru framsettar með þeim fyrirvara að eftir á að lesa veiðibækur yfir og staðfesta lokatölu.

  

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Jafnframt er vel þegið að fá lokatölur úr ám sem ekki hafa verið í vikulegri samantekt. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398