Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
20. september 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 19. september. Það er liðið fram á haust og berast lokatölur úr þeim ám sem veiði hófst fyrst í sumarbyrjun.

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum ám og í sumum tilvikum skýrist það af því að veiðihús hafa lokað og fyrir vikið er minni viðvera og tækifæri að sækja upplýsingar úr veiðibók/veiðibókum. En tölur skila sér að lokum og verða þær settar inn um leið og þær berast. 

 

Röð efstu ánna helst óbreytt milli vikna og sem fyrr eru Rangárnar í efstu tveimur sætunum. Í efsta sæti er Eystri-Rangá með 3733 laxa og þar hefur veiðin gengið ágætlega en síðasta veiðivika skilaði 116 löxum. Veiðin á svipuðum tíma í fyrra var 2030 laxar og er veiðin nú er því orðin 1703 löxum meiri en í fyrra. Veiðin í Ytri-Rangá er komin í alls 3593 laxa og gekk ágætlega í síðustu veiðiviku sem skilaði 148 löxum.

 

Miðfjarðará er í þriðja sæti á listanum og efst á lista náttúrulegu ánna, komin í alls 2602 laxa og skilaði síðasta veiðivika 93 löxum.

 

Þverá og Kjarará er í fjórða sæti, komin í 2455 laxa en veiði er lokið að undanskilinni Litlu Þverá og lokatölur berast um næstu mánaðarmót

Komnar eru nokkrar lokatölur en hafa ber í huga að veiðitölur eru framsettar með þeim fyrirvara að eftir á að lesa veiðibækur yfir og staðfesta lokatölu.

 

Norðurá - lokatala 1692 laxar. Veiði sambærileg og í fyrra, um 27 löxum færra en lokatala árið 2017 sem var 1719 laxar.

 

Haffjarðará - lokatala 1545 laxar. Veiðin skilaði 378 fleiri löxum en í fyrra. Lokatala 2017 var 1167 laxar.

 

Elliðaárnar - lokatala 960 laxar. Veiðin skilaði 70 löxum umfram lokatölu í fyrra en þá veiddust 890 laxar.

 

Laxá á Ásum - lokatala 702 laxar. Veiðin skilaði 406 löxum minna en í fyrra en þá veiddust 1108 laxar.

 

Laxá í Aðaldal - lokatala 608 laxar. Veiðin skilaði 101 laxi minna en í fyrra en þá veiddust 709 laxar.

 

Straumfjarðará - lokatala 349 laxar. Veiðin nánast sú sama og í fyrra, munar einungis þremur löxum en þá veiddust 352 laxar.

 

Búðardalsá - lokatala 331 laxar. Veiðin skilaði 76 löxum meira en í fyrra en þá veiddust 255 laxar.

 

Straumarnir - lokatala 215 laxar og 152 silungar. Veiðin skilaði 62 löxum og 118 silungum minna en í fyrra en þá veiddust 277 laxar og 270 silungar.

 

Laugardalsá - lokatala 198 laxar. Veiðin skilaði 23 löxum meira en í fyrra en þá veiddust 175 laxar.

 

Veiði heldur áfram í mörgum ám en flestar hafa lokað um næstu mánaðarmót. Veiðar í þeim ám sem byggja á seiðasleppingum verða stundaðar vel fram í október. Það er því hægt er að stunda laxveiðar áfram í þónokkrum ám þetta veiðitímabilið.

 

Hér er listi yfir sjö efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 20.09.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Eystri-Rangá 3733 laxar - vikuveiði 116 laxar. (2030)+

2. Ytri-Rangá 3593 laxar - vikuveiði 148 laxar. (6526)-

3. Miðfjarðará 2602 laxar - vikuveiði 93 laxar. (3627)-

4. Þverá og Kjarará 2455 laxar - Vantar tölur úr Litlu Þverá. (2060)+

5. Norðurá Lokatala 1692 laxar - (Lokatala 2017 = 1719)-

6. Haffjarðará  Lokatala 1545 laxar - (Lokatala 2017 = 1167)+

7. Langá laxar 1512 - vikuveiði 70 laxar. (1540)-

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám. Tölur verða settar inn þegar þær berast. Hér er hægt að skoða allan listann þar er veiðitölur eru frá tæplega fimmtíu ám.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 26 september.

 

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Jafnframt er vel þegið að fá lokatölur úr ám sem ekki hafa verið í vikulegri samantekt. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398