Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
11. september 2018

Eldislax í Selá í Ísafjarðardjúpi

Fjölmiðlar hafa skýrt frá því að eldislax hafi veiðst í ósi Selár við Ísafjarðardjúp. Rannsóknir hafa nú farið fram á fiskinum og er unnt að upplýsa eftirfarandi:

Þann 24. júlí 2018 veiddist eldislax í ósi Selár við Ísafjarðardjúp. Um var að ræða eldislax af norsku kyni, hann var kynþroska hængur og var með sviljasekki þannig að þátttaka í hrygningu í haust hefði verið möguleg að mati sérrfræðinga. Eldislaxinn var 63 cm að lengd og 4.2 kg. að þyngd. Hann var með skemmdan sporð og ugga að nokkru leyti. Í ljós kom að í honum voru samgróningar, sem eru afleiðing af bólusetningu, sem hann hefur fengið. 
Eldislaxinn ásamt sjóbleikju

Þetta er annað sumarið í röð, sem eldisfiskur veiðist í ósi Selár, en í fyrra veiddist þar regnbogasilungur. Í báðum tilvikum veiddust fiskarnir fyrir landi Ármúla.

Í Selá, sem er ein vatnsmesta áin á Vestfjörðum, og kemur úr Drangajökli en í hana renna margar stærri og minni bergvatnsár, þannig að hún verður mjólkurlituð í leysingum, er talsverð veiði laxfiska. Í henni veiðast af og til villtir laxar, en mest er veitt af sjóbleikju. Í fyrra veiddust fyrir landi Ármúla um 130 sjóbleikjur á tveggja mánaða tímabili og veiðin 2018 er heldur meiri, en einungis er veitt í eitt net helming vikunnar eins og heimilt er.
Sjóbleikja úr Selá

Við svonefnt mat á umhverfisáhrifum fiskeldis sem tengist umsóknum um leyfi til sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi, hafa eigendur Ármúla ítrekað krafist þess að stofnstærð sjóbleikjunnar í Ísafjarðardjúpi verði rannsökuð og farleiðir hennar kortlagðar til þess að unnt sé að meta umhverfisáhrif, meðal annars mengunar og slysalseppinga, á stofninn, en því hefur alltaf verið hafnað, án sérstaks rökstuðnings.