Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. september 2018

N-lax í eigu formanns sambands veiðifélaga

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, er einn eigenda fiskeldisstöðvarinnar N-lax á Húsavík. Regnbogasilungur slapp úr eldinu í síðasta mánuði en fyrirtækið tilkynnti Fiskistofu ekki um óhappið, eins og skylt er samkvæmt lögum um fiskeldi.

Við slátrun úr einu eldiskeri fyrirtækisins losnaði rist af niðurfallsröri í kerinu. Við það komust fiskar í frárennsli stöðvarinnar sem rennur í fráveitukerfi Húsavíkur. Því er ljóst að eldisfiskar bárust í fráveitu bæjarins. Matvælastofnun útilokar ekki að lifandi fiskur hafi borist til sjávar.

 

Eigendurnir hafi ekki vitað af óhappinu

Jón Helgi, segir eigendur fyrirtækisins ekki hafa vitað af óhappinu fyrr en tveimur dögum eftir að fiskurinn slapp út. Þá hafi starfsfólk talið að enginn fiskur hafi farið í niðurfall eldisstöðvarinnar og því hafi það verið metið sem svo að ekki bæri að tilkynna um þetta.

 

Telja að 2-3 fiskar hafi sloppið út

Það hafi svo ekki verið fyrr en Matvælastofnun fór að rannsaka málið í síðustu viku að ljóst var að einhverjir fiskar hafi komist í fráveitukerfi Húsavíkur. „Nú er vitað að það fóru 17 fiskar í niðurfallsrörið og við erum alveg sannfærðir um að það sluppu aðeins 2-3 fiskar út í fráveitukerfi bæjarins. Og það er alveg óljóst hvort þeir hafi komist þaðan lifandi til sjávar," segir Jón Helgi.

 

„Tökum þetta mjög alvarlega“

Regnbogasilungurinn er ófrjór og getur því ekki fjölgað sér í náttúrunni, hafi hann komist í sjóinn. Regnbogasilungar sem sloppið hafa úr eldi hafa veiðst í ám um mestallt land síðustu ár. „Við víkjum okkur ekki undan ábyrgðinni sem þessu fylgir og tökum þetta að sjálfsögðu mjög alvarlega,“ segir Jón Helgi. „Við munum bæta vinnulag innan stöðvarinnar og bregðast við athugsasemdum frá Matvælastofnun um að gera nauðsynlegar úrbætur. Það er gott að vita hve eftirlitsstofnanir brugðust hratt við og kerfið virkar eins og það á að gera." 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is