Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. september 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 5. september. Veiðin síðustu veiðiviku gekk víða ágætlega miðað við aðstæður og árstíma. Vatnsbúskapur var farin að hafa töluverð áhrif í nokkrum ám og var því kærkomið að fá úrkomu sem færði aðstæður til veiða i betra horf. Má þar nefna Norðurá sem skilaði einungis 11 löxum í þarsíðustu veiðiviku en skilaði 112 löxum í þessari veiðiviku sem var að líða. Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum ám og líklegt að listinn breytist aðeins þegar þær tölur skila sér. En útfrá þeim tölum sem hafa borist þá halda efstu tíu árnar sinni stöðu og sem fyrr eru Rangárnar í efstu tveimur sætunum. Í efsta sæti er Eystri-Rangá með 3486 laxa og þar hefur veiðin gengið vel en síðasta veiðivika skilaði 142 löxum. Veiðin á svipuðum tíma í fyrra var 1908 laxar og lokatala árið 2017 var 2143 laxar. Veiðin nú er því orðin 1343 löxum meiri en í fyrra. Veiðin í Ytri-Rangá er komin í alls 3177 laxa og gekk afar vel í síðustu veiðiviku sem skilaði 403 löxum en það er tæplega tvöfalt meiri vikuveiði en síðast.

Þverá og Kjarará er í þriðja sæti en er efst á lista náttúrulegu ánna, komin í 2444 laxa og skilaði síðasta vika 75 löxum. Veiðin er komin 384 löxum umfram lokatölu í fyrra en þá veiddust samtals 2060 laxar. Það styttist í að lokatala berist en veiði lýkur 7. September.  

 

Miðfjarðará er áfram í fjórða sæti, veiðin gengur vel og er komin í 2360 laxa og skilaði síðasta veiðivika 159 löxum sem er nánast sama og vikan á undan skilaði. Það er ljóst að Miðfjarðaráin fer fljótlega í efsta sæti náttúrulegu ánna en veiði stendur yfir vel fram í september.

Það styttist í að við fáum lokatölur úr fyrstu ánum þetta veiðitímabilið og verða veiðitölur settar inn þegar þær berast. En veiði heldur áfram í fjölmörgum ám og nokkrar vikur í að veiði ljúki. Það er því töluvert eftir af veiðitímabilinu og víða fallegt um að litast á veiðislóð enda skartar náttúran fallegum fjölbreyttum litskrúða og ekki amalegt að stunda veiðar í jafn fallegu umhverfi. Enn er hægt að veiða víða um land en flestar náttúrulegu árnar munu vera búnar að loka um næstu mánaðarmót. Veiðar í þeim ám sem byggja á seiðasleppingum verða stundaðar vel fram í október og því ljóst að hægt er að stunda laxveiðar töluvert áfram þetta veiðitímabilið.

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 06.09.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Eystri-Rangá 3486 laxar - vikuveiði 142 laxar. (1908)+

2. Ytri-Rangá 3177 laxar - vikuveiði 403 laxar. (5588)-

3. Þverá og Kjarará 2444 laxar - vikuveiði 75 laxar. (2022)+

4. Miðfjarðará 2360 laxar - vikuveiði 159 laxar. (3239)-

5. Norðurá 1610 laxar - vikuveiði 112 laxar. (1662)-

6. Haffjarðará 1502 laxar - vikuveiði 67 laxar. (1130)+

7. Langá laxar 1395 - vikuveiði 56 laxar. (1383)+

8. Urriðafoss í Þjórsá laxar 1257 - vikuveiði 14 laxar. (755 lokatala)+

9. Selá í Vopnafirði laxar 1222 - vikuveiði 111 (836)+ (veiðitala 29.08)

10. Elliðaárnar 932 laxar - vikuveiðin 39 laxar. (855)+

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám og líklegt að listinn hér að ofan breytist aðeins.Tölur verða settar inn þegar þær berast. Hér er hægt að skoða allan listann þar er veiðitölur eru frá tæplega fimmtíu ám.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 12 september.

 

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398