Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
30. ágúst 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 29. ágúst. Veiðin síðast liðna viku ber merki þess að vatnsbúskapur er víða fremur bágborinn og hefur það áhrif á veiði. Eflaust myndi góð úrkoma bæta aðstæður til hins betra og ekki verður betur séð en að slíkt sé í spákortum þegar líður að helgi. Ekki er ólíklegt að veiðin taki kipp í kjölfarið og vonandi að næstu vikutölur beri þess merki. Efstu tíu árnar halda sinni stöðu og sem fyrr eru Rangárnar í efstu tveimur sætunum og þar hefur veiðin gengið ágætlega. Veiðin í Eystri-Rangá er komin í 3344 laxa og var vikuveiðin 284 laxar og er veiðin orðin 1201 löxum meiri en lokatala í fyrra (2017) sem var samtals 2143 laxar. Veiðin í Ytri-Rangá er komin í alls 2774 laxar og vikuveiði 218 laxar. Þverá og Kjarará er í þriðja sæti en er efst á lista náttúrulegu ánna, komin í 2369  laxa og skilaði síðasta vika 98 löxum sem er betri vikuveiði en í vikunni á undan. Veiðin er komin 309 laxa umfram lokatölu í fyrra en þá veiddust samtals 2060 laxar.

 

Miðfjarðará er áfram í fjórða sæti og er komin í 2201 lax og skilaði síðasta veiðivika 162 löxum sem er aðeins minna en vikan á undan skilaði. Norðurá er í fimmta sæti með 1498 laxa en síðasta veiðivika skilaði óvenju litlu eða 11 löxum og er veiðin nú nokkrum löxum meiri en á svipuðum tíma í fyrra. Skammt á eftir Norðurá er Haffjarðará í sjötta sæti með 1435 laxa og skilaði síðasta veiðivika 82 löxum samanborið við 66 laxa veiðiviku þar á undan. Veiðin í Haffjarðará er nú orðin 268 löxum meiri en lokatalan í fyrra en þá veiddust samtals 1167 laxar. Langá er í sjöunda sæti og er veiðin svipuð og á sama tíma í fyrra. Í áttunda sæti er Urriðafoss í Þjórsá sem er komin í 1243 laxa en það er 488 löxum meira en lokatalan í fyrra sem var 755 laxar en þess má geta að nú er veitt á fjórar stangir en í fyrra voru þær tvær. Selá í Vopnafirði er í níunda sæti með alls 1222 laxa en síðasta veiðivika skilaði 111 löxum. Veiðin í Selá er orðin 285 löxum meiri en í fyrra. Elliðaárnar eru í tíunda sæti og er veiðin orðin jöfn lokatölu í fyrra og þremur löxum betur, alls 893 laxar og skilaði síðasta veiðivika 36 löxum.

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 30.08.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Eystri-Rangá 3344 laxar - vikuveiði 284 laxar. (1773)+

2. Ytri-Rangá 2774 laxar - vikuveiði 218 laxar. (4582)-

3. Þverá og Kjarará 2369 laxar - vikuveiði 98 laxar. (1890)+

4. Miðfjarðará 2201 laxar - vikuveiði 162 laxar. (2937)-

5. Norðurá 1498 laxar - vikuveiði 11 laxar. (1442)+

6. Haffjarðará 1435 laxar - vikuveiði 82 laxar. (1085)+

7. Langá laxar 1339 - vikuveiði 51 laxar. (1314)+

8. Urriðafoss í Þjórsá laxar 1243 - vikuveiði 32 laxar. (755 lokatala)+

9. Selá í Vopnafirði laxar 1222 - vikuveiði 111 (836)+

10. Elliðaárnar 893 laxar - vikuveiðin 36 laxar. (830)+

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám en tölur verða settar inn þegar þær berast.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 5 september.

 

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398