Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
23. ágúst 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 22. ágúst. Það má segja að það sé kominn haustbragur á veiðitölurnar í þessari samantekt en veiðin hefur gengið víðast hvar ágætlega miðað við árstíma og aðstæður til veiða. Undantekning frá þessu eru Rangárnar en þar gengur veiðin vel í Eystri-Rangá og Ytri-Rangá.  Athygli vekur að  veiði í Eystri-Rangá, alls 3060 laxar, gengur mun betur en í fyrra og er veiðin orðin 917 löxum meiri en lokatala í fyrra (2017) sem var samtals 2143 laxar. Hinsvegar þá er veiðin í Ytri-Rangá, alls 2556 laxar og vikuveiði 276 laxar, kominn í rúmlega þriðjung af heildarveiðinni í fyrra en lokatalan var þá 7451. Hafa ber í huga að bæði vatnakerfin byggja nær alfarið á seiðasleppingum og stendur veiðin vel fram í október og því er töluvert eftir af veiðitíma og verður fróðlegt að sjá hvernig veiðin verður á næstu vikum. Einnig má nefna Norðlingafljót sem jafnframt byggir á seiðasleppingum en hefur þá sérstöðu að lax er fluttur á svæðið. Þar hófst veiði fremur seint og fór veiði hægt af stað en síðasta veiðivika gekk ágætlega og skilaði 80 löxum og er veiðin komin í 168 laxa.

Sem fyrr er Þverá og Kjarará efst á lista náttúrulegu ánna, komin í 2271 laxa og skilaði síðasta vika 69 löxum. Veiðin er komin 211 laxa umfram lokatölu í fyrra en þá veiddust samtals 2060 laxar. En það eru fleiri ár/veiðisvæði sem eru komnar með meiri veiði en lokatölur í fyrra og má þar nefna eftirtaldar ár: Haffjarðará, Urriðafoss í Þjórsá, Selá í Vopnafirði, Haukadalsá, Hítará, Affall í Landeyjum, Jökla, Brennan í Hvítá, Búðardalsá og Miðá í Dölum. Nokkrar ár munu líklega fara fljótlega yfir lokatölu síðasta árs en þær eru: Elliðaárnar, Laxá í Dölum, Laxá í Kjós, Laxá í Leirársveit, Hofsá og Sunnudalsá og fl.

 

Sem fyrr segir þá eru Eystri-Rangá og Ytri-Rangá efstar á listanum þessa vikuna og úr þessu munu þær bæta töluvert við enda gengur veiði vel og nóg eftir af veiðitíma en það er veitt í þeim báðum vel fram í október. Eystri-Rangá er í efsta sæti og komin yfir 3000 laxa og 60 betur. Veiðin hefur gengið mjög vel og skilaði síðasta vika samtals 409 löxum. Lokatalan í Eystri-Rangá í fyrra var 2143 laxar og veiðin nú orðin 917 löxum meiri.

 

Veiðin gengur einnig vel í Ytri-Rangá sem er í öðru sæti á listanum þessa vikuna en þar er veiðin komin í alls 2556 laxa og skilaði síðasta veiðivika 276 löxum.

 

Í þriðja sæti er Þverá og Kjarará með 2271 laxa og skilaði síðasta veiðivika 69 löxum.

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 23.08.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Eystri-Rangá 3060 laxar - vikuveiði 409 laxar. (1685)+

2. Ytri-Rangá 2556 laxar - vikuveiði 276 laxar. (4218)-

3. Þverá og Kjarará 2271 laxar - vikuveiði 69 laxar. (1777)+

4. Miðfjarðará 2039 laxar - vikuveiði 176 laxar. (2668)-

5. Norðurá 1497 laxar - vikuveiði 42 laxar. (1355)+

6. Haffjarðará 1353 laxar - vikuveiði 66 laxar. (1033)+

7. Langá laxar 1288 - vikuveiði 79 laxar. (1237)+

8. Urriðafoss í Þjórsá laxar 1211 - vikuveiði 72 laxar. (742)+

9. Selá í Vopnafirði laxar 1111 - vikuveiði 82 (813)+

10. Elliðaárnar 857 laxar - vikuveiðin 46 laxar. (764)+

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám en tölur verða settar inn þegar þær berast.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 29 ágúst.

 

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398