Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
16. ágúst 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 15. ágúst. Veiðin gekk misvel síðastliðna veiðiviku en það er greinilegur munur á veiði milli landshluta. Veiði í nokkrum ám norðan heiða er fremur dræm og er að mörgu leiti frábrugðin veiði í öðrum landshlutum þar sem margar ár eru með meiri veiði og jafnvel mun meiri veiði en í fyrra. Hvað veldur því að vatnakerfi í einum landshluta séu með minni veiði en á öðrum er erfitt um að segja. Minni heimtur úr hafi geta jafnvel átt sé skýringar sem er að finna í seiðabúskap viðkomandi vatnakerfa og stærð árganga gönguseiða sem gengu til sjávar í fyrra sumar. En líklega er best að bíða með slíkar vangaveltur þangað til veiðitímabili lýkur.

 En þó vissulega sé komið fram í miðjan ágúst þá verður víðast hvar veitt fram í fyrri hluta september mánaðar og því nokkrar vikur í að ár skili inn lokatölum þetta veiðitímabilið. Margt getur gerst á þeim tíma og verður fróðlegt að sjá hernig veiðin þróast.

Breytingar hafa orðið á listanum eftir veiði síðastliðna viku. Rangárnar skipta með sér fyrsta og öðru sæti á listanum þessa vikuna. Eystri-Rangá sem komin er í efsta sætið með alls 2651 laxa. Síðasta vika skilaði mikilli veiði eða samtals 649 löxum og ljóst að veiðin gengur afar vel þessa dagana. Ef veiðitalan núna er borin saman við veiðina á svipuðum tíma í fyrra (16.08.2017) þá munar þar töluvert miklu. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 1401 laxar og veiðin nú tæplega helmingi meiri og verður fróðlegt að sjá áframhaldið.

 

Veiðin gengur einnig mjög vel í Ytri-Rangá  sem er í öðru sæti á listanum þessa vikuna en þar er veiðin komin í alls 2288 laxa og skilaði síðasta veiðivika 396 löxum.

 

Í þriðja sæti er Þverá og Kjarará með 2202 laxa og skilaði síðasta veiðivika 91 laxi. 

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 16.08.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Eystri-Rangá 2651 laxar - vikuveiði 649 laxar. (1401)+

2. Ytri-Rangá 2288 laxar - vikuveiði 396 laxar. (3746)-

3. Þverá og Kjarará 2202 laxar - vikuveiði 91 laxar. (1600)+

4. Miðfjarðará 1863 laxar - vikuveiði 181laxar. (2386)-

5. Norðurá 1455 laxar - vikuveiði 47 laxar. (1302)+

6. Haffjarðará 1287 laxar - vikuveiði 83 laxar. (980)+

7. Langá laxar 1209 - vikuveiði 119 laxar. (1149)+

8. Urriðafoss í Þjórsá laxar 1139 - vikuveiði 44 laxar. (706)+

9. Selá í Vopnafirði  laxar 1029 - vikuveiði 166 (685)+

10. Blanda 848 laxar - vikuveiðin 16 laxar. (1331)-

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám en tölur verða settar inn þegar þær berast.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 22 ágúst.

 

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398