Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
2. ágúst 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 1. ágúst. Veiðin gekk ágætlega síðastliðna veiðiviku og bættust þrjár ár til viðbótar þeim fimm er hafa farið yfir þúsund laxa markið þetta veiðitímabilið en það eru Langá, Haffjarðará og Urriðafoss í Þjórsá. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu fjórar ár farið yfir 1000 laxa markið.

 

Efst á listanum er Þverá + Kjarará en þar hafa veiðst 1975 laxar og skilaði síðasta veiðivika 158 löxum. Veiðin hefur gengið mjög vel en á svipuðum tíma (02.08.17) í fyrra höfðu veiðst 1393 laxar og er því veiðin nú orðin 582 löxum meiri. Það styttist í 2000 laxa markið og líklega er veiðin komin yfir það mark nú þegar.

Í öðru sæti á listanum er Ytri-Rangá og er hún komin í alls 1549 laxa, veiðin hefur gengið mjög vel og skilaði síðasta veiðivika alls 435 löxum.

 

Í þriðja sæti er Miðfjarðará en þar er veiðin komin í 1422 laxa eftir góða veiði síðustu veiðiviku sem skilaði 364 löxum sem er nánast á pari við veiðivikuna á undan.

 

Í fjórða sæti er Eystri-Rangá þar er veiðin komin í 1367 laxa. Veiðin hefur gengið vel og skilaði síðasta veiðivika 296 löxum. Ef veiðitala er borin saman við nánast sama tíma í fyrr þá höfðu veiðst 672 laxar og veiðin því oðin rúmlega helmingi meiri en í fyrra.

 

Í fimmta sæti er Norðurá með 1352 laxa og vikuveiðin skilaði 121 löxum. Veiðin á sambærilegum tíma í fyrra var 1175 laxar og er veiðin nú 177 löxum meiri.

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 02.08.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Þverá og Kjarará 1975  laxar -  vikuveiði 158 laxar. (1393)+

 

2. Ytri-Rangá 1549 laxar - vikuveiði 435 laxar. (2287)-

 

3. Miðfjarðará 1422 laxar - vikuveiði 364 laxar. (1852)-

 

4. Eystri-Rangá  1367 laxar - vikuveiði 297 laxar. (672)+

 

5. Norðurá 1352 laxar - vikuveiði 121 laxar. (1175)+

 

6. Haffjarðará 1075 laxar - vikuveiði 127 laxar. (808)+

 

7. Urriðafoss í Þjórsá 1038 laxar - vikuveiði 83 laxar. (656)+

 

8. Langá  laxar 1003- vikuveiði 160 laxar. (963)+

 

9. Blanda 771 laxar - vikuveiðin 103 laxar. (1074)-

 

10. Selá í Vopnafirði 706 laxar - vikuveiði 214 (525)+

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám en tölur verða settar inn þegar þær berast.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 8 ágúst.

 

Við vekjum áfram athygli veiðimanna á því að ekki er enn ljóst hve mikið af eldislaxi slapp úr eldiskvíum Arnarlax í Tálknafirði fyrr í þessum mánuði. En í ljósi þess að eldislax slapp úr þá er mjög mikilvægt að þekkja í sundur villtan lax og eldislax. Ef grunur leikur á að veiddur lax sé eldislax þá er mikilvægt að sleppa honum ekki og tilkynna viðkomandi stofnun.

 

Hér er hægt að kynna sér leiðbeiningar um samanburð á villtum lax og eldislax

 

Geta má þess að hreistursýnataka af veiddum fisk er eitt mikilvægasta framlag veiðimanna til rannsókna. Fjölmargt má greina í hreistri og t.d. er hægt að sjá hvort fiskur sé af eldisuppruna. Sjá nánar fróðleik um hreistursýnatöku. 

 

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398