Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
26. júlí 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 25. júlí síðastliðinn. Veiðin gekk víðast hvar vel og sumstaðar mjög vel síðust veiðiviku og bættust þrjár ár til viðbótar þeim er hafa farið yfir þúsund laxa markið þetta veiðitímabilið en það eru Ytri-Rangá, Eystri-Rangá og Miðfjarðará.

 

Enn trónir Þverá og Kjarará efst á listanum en þar hafa veiðst 1817 laxar. Þar hefur veiðin gengið mjög vel og veiddust alls 292 í liðinni veiðiviku. Á svipuðum tíma (26.07.17) í fyrra höfðu veiðst 1312 laxar og er því veiðin nú orðin 505 löxum meiri. Samkvæmt heimildarmönnum þá er vatnsbúskapur góður og mikið af laxi á öllu svæðinu og af nógu að taka. Ekki er ólíklegt að við næstu samantekt verði veiðitalan komin yfir 2000 laxa og einungis spurning hvenær veiðin nær lokatölu veiðinnar í fyrra en þá var heildarveiðin 2060 laxar.

 

Í öðru sæti á listanum er Norðurá og er hún komin í alls 1231 laxa en síðasta veiðivika skilaði alls 106 löxum. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 1095 laxar og veiðin nú 136 löxum meiri. 

 

Í þriðja sæti er Ytri-Rangá en þar er veiðin komin vel yfir þúsund laxa markið og komin í 1114 laxa eftir mjög góða veiði síðustu veiðiviku sem skilaði 366 löxum.

 

Í fjórða sæti er Eystri-Rangá sem bætist í hóp þeirra sem komnar eru yfir þúsund laxa en þar er veiðin komin í 1070 laxa. Hún færist upp um fjögur sæti frá samantekt síðustu viku en veiðin gekk afar vel og skilaði síðasta veiðivika 515 löxum. Það er áhugavert að skoða veiðina á svipuðum tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 338 laxar og veiðin nú því 732 löxum meiri.

 

Í fimmta sæti er Miðfjarðará með 1058 laxa og bætist í hóp þeirra sem komnar eru yfir þúsund laxa. Vikuveiðin var mjög góð og skilaði 299 löxum. Veiðin fór rólega af stað í upphafi en síðan hefur bætt hressilega í og gengur veiðin mjög vel eins og síðasta veiðivika vitnar um. 

 

Þess má geta þess að fleiri ár stefna hratt í að fara yfir 1000 laxa veiði en Urriðafoss í Þjórsá er komin í 955 laxa eftir 113 laxa veiðiviku og veiðin nú orðin 200 löxum meiri en lokatalan í fyrra sem var 755 laxar. Veiðin gengur einnig vel í Haffjarðará en þar er veiðin komin í 948 laxa eftir góða veiðiviku sem skilaði 226 löxum og er veiðin mun meiri nú sé borið saman við svipaðan tíma og í fyrra en þá höfðu veiðst 670 laxar.

 

Það er fróðlegt að sjá hvernig veiðin hefur þróast í þeim ám sem við fylgjumst með en sem dæmi má nefna (veiði 26.07.2017 í sviga) að eftir fremur rólega byrjun þá hafa, bæði Langá með 843 laxa (873) og Grímsá og Tunguá með 576 laxa (594), bætt vel í og eru um það bil að ná sömu veiði og var á svipuðum tíma í fyrra. Nokkar aðrar ár má nefna sem eru nánast á pari við veiðina í fyrra eru t.d. Flókadalsá 264 lax (261), Stóra-Laxá 252 lax (257), Svalbarðasá 109 lax (103), Svartá í Húnavatnssýslu 38 lax (37).

 

En síðan má nefna ár á listanum sem eru búnar að skila fleiri löxum en á svipuðum tíma og í fyrra en það eru t.d. Laxá í Kjós með 551 lax (413), Selá í Vopnafirði með 492 lax (390), Laxá í Dölum 425 lax (209), Laxá í Leirársveit 373 lax (287), Hofsá í Vopnafirði 280 lax (180), Brennan í Hvítá 270 lax (197), Affall í Landeyjum 73 lax (23).

 

Fróðlegt verður að fylgjast með þeim ám þar sem veiði hefur verið lakari en í fyrra og miðað við gang veiðinar nú er ekki ólíklegt að sumar þeirra færi stöðu til betri vegar enda nægur tími eftir af þessu veiðitímabili og margt sem getur átt sér stað. 

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 26.07.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Þverá og Kjarará 1817  laxar -  vikuveiði 292 laxar. (1312)+

2. Norðurá 1231 laxar - vikuveiði 106 laxar. (1095)+

3. Ytri-Rangá 1114 laxar - vikuveiði 366 laxar. (1570)-

4. Eystri-Rangá 1070 laxar – vikuveiði 515 (338)+

5. Miðfjarðará 1058 laxar - vikuveiði 299 laxar. (1458)-

6. Urriðafoss í Þjórsá 955 laxar - vikuveiði 113  laxar. (625)+

7. Haffjarðará 948 laxar - vikuveiði 226 laxar. (670)+

8. Langá 843 laxar - vikuveiði 235 laxar. (873)-

9. Blanda 668 laxar - vikuveiðin 153 laxar. (913)-

10. Grímsá og Tunguá 576 laxar – vikuveiði 137  laxar. (594)-

 

Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám en tölur verða settar inn þegar þær berast.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 1 ágúst.

 

Við vekjum áfram athygli veiðimanna á því að ekki er enn ljóst hve mikið af eldislaxi slapp úr eldiskvíum Arnarlax í Tálknafirði fyrr í þessum mánuði. En í ljósi þess að eldislax slapp úr þá er mjög mikilvægt að þekkja í sundur villtan lax og eldislax. Ef grunur leikur á að veiddur lax sé eldislax þá er mikilvægt að sleppa honum ekki og tilkynna viðkomandi stofnun.

 

Hér er hægt að kynna sér leiðbeiningar um samanburð á villtum lax og eldislax

 

Geta má þess að hreistursýnataka af veiddum fisk er eitt mikilvægasta framlag veiðimanna til rannsókna. Fjölmargt má greina í hreistri og t.d. er hægt að sjá hvort fiskur sé af eldisuppruna. Sjá nánar fróðleik um hreistursýnatöku. 

 

Við bendum á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398