Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
19. júlí 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 18. júlí síðastliðinn. Veiðin gekk víðast hvar vel síðust veiðiviku og bættist Eystri-Rangá á listan yfir efstu tíu árnar en veiðin er komin í 555 laxa og alls veiddust 339 laxar síðustu veiðiviku. Ef veiðin er borin saman við svipaðan tíma í fyrra þá höfðu veiðst 201 laxar. Veiðin nú er orðin tæplega þrisvar sinnum meiri en í fyrra. 

 

Á listann okkar bætist Langholt við Hvítá en þar er veiðin komin í 236 laxa og síðustu veiðiviku veiddust alls 86 laxar.

 

Í efsta sæti á listanum er Þverá og Kjarará en þar hafa veiðst 1525 laxar. Þar hefur veiðin gengið afar vel og veiddust alls 339 í liðinni veiðiviku. Á svipuðum tíma (19.07.17) í fyrra höfðu veiðst 1238 laxar og er því veiðin nú orðin 287 löxum meiri.

 

Í öðru sæti á listanum er Norðurá og er hún önnur áin sem fer yfir 1000 laxa markið þetta veiðitímabilið. Veiðin er komin í alls 1125 laxa og hefur veiðin gengið vel en síðasta veiðivika skilaði alls 291 löxum. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 794 laxar og veiðin nú orðin 331 löxum meiri. 

 

Í þriðja sæti er Urriðafoss í Þjórsá en þar er veiðin komin í 842 laxa og skilaði síðasta veiðivika 124 löxum. Í fyrra var lokatalan í Urriðafoss alls 755 laxar og er veiðin nú orðin 87 löxum meiri en lokatala síðasta veiðitímabils.

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 19.07.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Þverá og Kjarará 1525  laxar -  vikuveiði 339 laxar. (1238)+

2. Norðurá 1125 laxar - vikuveiði 291 laxar. (794)+

3. Urriðafoss í Þjórsá 842  laxar - vikuveiði 124  laxar. (583)+

4. Miðfjarðará 759 laxar - vikuveiði 244 laxar. (1202)-

5. Ytri-Rangá 748 laxar - vikuveiði 347 laxar. (902)-

6. Haffjarðará 722 laxar - vikuveiði 235 laxar. (547)+

7. Langá 608 laxar - vikuveiði 262 laxar. (731)-

8. Eystri-Rangá 555 laxar – vikuveiði 339 (201)+

9. Blanda 515 laxar - vikuveiðin 98 laxar. (745)-

10. Elliðaárnar 458 laxar – vikuveiði 133  laxar. (475)-

 

Síðasta vatnakerfið til að opna þetta veiðitímabilið er Norðlingafljót en það opnaði 18 júlí og verða veiðitölur frá opnunardegi birtar fljótlega. Veiðitölur eiga eftir að skila sér úr nokkrum ám en tölur verða settar inn þegar þær berast.

 

Athygli veiðimanna er vakin á því að ekki er enn ljóst hve mikið af eldislaxi slapp úr eldiskvíum Arnarlax í Tálknafirði fyrr í þessum mánuði. En í ljósi þess að eldislax slapp úr þá er mjög mikilvægt að þekkja í sundur villtan lax og eldislax. 

 

Ef grunur leikur á að veiddur lax sé eldislax þá er mikilvægt að sleppa honum ekki og tilkynna viðkomandi stofnun. Hér er hægt að kynna sér leiðbeiningar um samanburð á villtum lax og eldislax

 

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig veiðin gengur en næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 25 júlí.

 

Athygli er vakin á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398