Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
13. júlí 2018

Fjöldi eldislaxa sem sluppu óljós

Orsök skemmda á sjókví Arnarlax þegar eldisfiskur slapp í Tálknafirði liggur ekki fyrir. Enn er óljóst hversu margir sluppu en fimm eldisfiskar hafa veiðst utan kvíar. Þetta er annað óhappið hjá eldisstöð Arnarlax í Tálknafirði á innan við tveimur vikum.

Umfang slysasleppingar óljós

Eldislax slapp úr sjókví Arnarlax í Tálknafirði í síðustu viku. Tvö göt fundust á kvínni og eldisfisks varð vart utan kvíar, fiskarnir eru þrjú og hálft kíló. Reknet voru sett út í samstarfi við Fiskistofu og hafa fimm eldisfiskar veiðst í þau. Í byrjun þessarar viku hélt starfmaður Matvælastofnunar vestur og segir í tilkynningu frá stofnuninni að farið hafi verið yfir atburðarás atviksins, búnað og viðbrögð fyrirtækisins. Ljóst sé að eldisfiskur hafi sloppið út en umfangið sé óljóst. Í kvínni voru um 150 þúsund fiskar. Þá liggur ekki fyrir hvað olli skemmdunum en Matvælastofnun segir að viðbrögð fyrirtækisins hafi verið samkvæmt skráðum verkferlum. 

 

Annað óhappið á innan við tveimur vikum

Þetta er í annað sinn sem frávik verður á búnaði fyrirtækisins í Tálknafirði á innan við tveimur vikum. Í lok júní varð óhapp af völdum vinnubáts við kví Arnarlax í Tálknafirði - nótarpoki sogaðist inn í skrúfu bátsins, sem var ekki varin með hlíf, og vafðist um skrúfublöðin. Ekki kom gat á nótina fyrr en kafarar losuðu hana en 64 þúsund fiskar voru fluttir úr kvínni. Matvælastofnun hefur gengið frá lokaskýrslu um atvikið þar sem fram kemur að fyrirtækið hafi brugðist rétt við en að hlíf fyrir skrúfu vinnubátsins hafi ekki verið til staðar, þótt reglugerð um fiskeldi kveði á um það. Matvælastofnun krafðist úrbóta og samkvæmt Ernu Karen Óskarsdóttur, fagsviðsstjóra fiskeldis hjá Matvælastofnun hefur úrbótum verið framfylgt. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is