Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. júlí 2018

Tuttugu prósent afföll í Hítará

Um 20 prósent afföll gætu orðið af laxi í Hítará vegna skriðunar sem féll í ána um helgina. Þetta er mat fiskifræðings. Leiðsögumaður segir stöðuna erfiða, þótt enn sé líf í ánni.

 

Eitt stærsta berghlaup frá landnámi varð í Hítardal aðfaranótt laugardags. Skriðan breytti landslagi í dalnum og stíflaði Hítará, sem hefur þó fundið sér leið framhjá stíflunni, að minnsta kosti að hluta. Þetta hefur áhrif á laxastofninn í Hítará, en hún er ein besta laxveiðiá landins.

Hítará á Mýrum

Jóhannes Jósefsson glímukappi og veitingamaður á Hótel Borg byggði veiðihús á Brúarfossi og hafði fyrir sumaraðsetur sitt í mörg ár. Eitt fallegasta veiðihús landsins og staðsetningin skemmir ekki fyrir

 

„Þetta er náttúrulega mjög stór atburður,“ segir Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. „ Við þetta þornar upp eða er úr leik allavega 10 kílómetra hrygningar- og uppeldissvæði. Og ég er búinn að ramma þetta inn þannig að ég held að þetta séu um 20% af framleiðslugetu á laxi á vatnasvæði Hítarár.“

 

„Búið að vera hark“

Stangaveiðifélag Reykjavíkur hefur hvatt veiðimenn í ánni til þess að sleppa öllum fiski sem veiðist. „Þetta er búið að vera hark. Það er ekkert leyndarmál. En það er fiskur í ánni og töluvert af honum hérna fyrir neðan hús,“ segir Árni Friðleifsson, formaður fulltrúaráðs SVFR og leiðsögumaður í Hítará.

 

Það er hópur hérna núna - hvað er hann búinn að fá marga fiska? „Hann er búinn að landa sex fiskum og missa annað eins. Þannig að það er líf í þessu,“ segir Árni.

 

Rétt fyrir neðan skriðuna má glögglega sjá hversu mikil áhrif hún hefur haft á rennsli Hítarár. Skriðan hefur algjörlega stíflað ána og á því svæði er ekkert eftir af henni, nema stórir drullupollar.

 

Ef laxinn kemst ekki framhjá stíflunni, hvaða afleiðingar hefur það fyrir hann? „Þá eru enn fleiri uppeldissvæði úr leik, ef það gerist. Og það er stórt svæði fyrir ofan skriðuna og inn að Hítarvatni sem þarf að vera inni í framleiðslu. Og það er verkefnið framundan að tryggja að svo verði,“ segir Sigurður Már.

 

„Þetta er sorglegt en þarna er náttúran á Íslandi að verkum og lítið sem mannshöndin getur gert í þessu. Við lifum bara í svona landi og þetta er alltaf möguleiki nánast hvar sem er á landinu,“ segir Árni.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is