Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. júlí 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 11. júlí síðastliðinn. Síðastliðin vika einkenndist sem fyrr af úrkomu og lágu hitastigi á suðvestur hluta landsins en veður var þó betra í flestum öðrum landshlutum. Skilyrði til veiða voru sæmileg en vonandi fer veðurfar að breytast til hins betra.

 

(Frétt uppfærð kl. 10:08)

Eflaust hefur það ekki farið fram hjá neinum þær fréttir að stór skriða féll í Hítardal og er þar í mótun nýr farvegur Hítarár fram hjá skriðunni. Þetta hefur án efa tímabundin neikvæð áhrif en þarna er um að ræða atburð sem má alfarið rekja til náttúrunar og kom þar mannshöndin ekki nærri.

 

En það er önnur vá sem má rekja beint til manna og má þar nefna slysaleppingar úr eldiskvíum í Tálknafirði nýverið. Afleiðingar þess að frjór lax af norskum uppruna hafi sloppið á þessum árstíma eru ófyrirséðar enn sem komið er og hvetjum við veiðimenn að skoða vel þá laxa sem þeir veiða.

 

Mikilvægt er að þekkja í sundur villtan lax og eldislax. Ef grunur leikur á að veiddur lax sé eldislax þá er mikilvægt að sleppa honum ekki og tilkynna viðkomandi stofnun, sjá upplýsingar hér að neðan. Hér er hægt að kynna sér leiðbeiningar um samanburð á villtum lax og eldislax

 

Í efsta sæti á listanum og fyrsta vatnakerfið til að ná 1000 laxa markinu er Þverá og Kjarará en þar hafa veiðst 1186 laxar. Þar hefur veiðin gengið afar vel og veiddust alls 343 í liðinni veiðiviku. Á svipuðum tíma (12.07.17) í fyrra höfðu veiðst 1001 laxar og er því veiðin nú orðin 185 löxum meiri.

 

Í öðru sæti á listanum er Norðurá en þar gekk veiðin vel en alls veiddust 277 laxar síðustu veiðiviku og er Norðurá komin í alls 834 laxa. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 794 laxar og veiðin því betri nú en í fyrra.

 

Í þriðja sæti er Urriðafoss í Þjórsá en þar er veiðin komin í 718 laxa og skilaði síðasta veiðivika 141 laxi. Þess má geta að í fyrra var lokatalan í Urriðafoss alls 755 laxar og því ljóst að einungis vantar 37 laxa til að jafna allt tímabilið í fyrra.

 

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 12.07.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Þverá og Kjarará 1186 laxar -  vikuveiði 343 laxar. (1001)+

2. Norðurá 834 laxar - vikuveiði 277 laxar. (794)+

3. Urriðafoss í Þjórsá 577 laxa - vikuveiði 141 laxar. (531)+

4. Miðfjarðará 515 laxar - vikuveiði 195 laxar. (749)-

5. Haffjarðará 487 laxar - vikuveiði 167 laxar. (420)+

6. Blanda 417 laxar - vikuveiðin 118 laxar. (514)-

7. Ytri-Rangá 401 laxar - vikuveiði 193 laxar. (570)-

8. Langá 346 laxar - vikuveiði 150 laxar. (532)-

9. Elliðaárnar 325 laxar - vikuveiði 97 laxar. (345)-

10. Laxá í Kjós 276 laxar - vikuveiði 165 laxar. (251)+

 

Norðlingafljótið er eina vatnakerfið sem á eftir að opna en það mun eiga sér stað 18 júlí.

 

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig veiðin gengur en næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 18 júlí.

 

Athygli er vakin á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398