Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. júlí 2018

Eldislax slapp úr kvíum í Tálknafirði

Allt bendir til þess að bilun í upphífingarbúnaði hafi orsakað tvö stór göt sem uppgötvuðust á nótapoka við sjókvíar í Tálknafirði hjá Arnarlaxi í gærmorgun. Strax varð ljóst að lax hefði sloppið úr kvínni og útlit er fyrir að það hafi verið töluvert.
 

Starfsmenn Arnarlax voru við reglubundið eftirlit við sjókvíar í Tálknafirði þegar þeir urðu varir við göt á nótapoka. Sérhæfðir kafarar voru kallaðir út og við nánari skoðun komu í ljós tvö got á pokanum, annað 100 sinnum 50 sentimetrar og hitt hundrað sinnum sjötíu sentimetrar að stærð, að því er fram kemur í tilkynningu frá Arnarlaxi.  

 

Atvikið var strax tilkynnt til Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Fiskistofu og voru viðbragðsáætlanir virkjaðar. Reknet voru lögð út við kvína og gripið til viðeigandi aðgerða til að koma í veg fyrir að fiskur slyppi úr kvínni.
 

Málið litið alvarlegum augum

Guðni Magnús Eiríksson, sviðstjóri á lax- og silungsveiðisviði hjá Fiskistofu, segir að eftirlitsmaður hafi farið frá Fiskistofu strax um hádegi í gær til að kanna aðstæður. Hann staðfestir að viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð af Arnarlaxi og að tveir laxar hafi veiðst í reknetin við kvíarnar. Strax hafi verið ljóst að fiskur hefði sloppið úr nótinni, þar sem götin hafi verið stór og að fiskur hafi sést fyrir utan kvíarnar.

 

Guðni segir að það sé sjaldgæft að veiðar með reknetum í kring um kvíar beri árangur. Í ljósi þess að þegar hafi tveir fiskar veiðst bendi allt til þess að töluvert mikið af fiski hafi sloppið. Slíkt sé þó erfitt að staðfesta. Næstu skref séu að fylgjast með hvort vart verði við eldisfisk í ám á svæðinu en Guðni segir að það geti vel gerst að hann ganga upp í ár.

 

Slysaslepping er alltaf mjög alvarlegt mál segir Guðni. Hann segir fyrirtækið einnig líta á málið mjög alvarlegum augum, fyrstu viðbrögð hafi verið rétt og nú sé unnið að því að takmarka tjónið. Skýrsla er væntanleg frá Arnarlaxi þar sem verður farið nánar yfir atburðinn og metið hversu mikið af fiski hefur sloppið.

 

Ekki er vitað hvað olli götunum en flest bendir til þess að bilun hafi komið upp í upphífingarkerfi nótapoka með þessum afleiðingum. Starfsmaður frá Matvælastofnun fer vestur á mánudag til að taka út búnaðinn og meta aðstæður frekar. Búið er að kafa í aðrar kvíar á svæðinu og reyndust þær í lagi og því er um einangrað tilvik að ræða. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is