Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. júlí 2018

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 4. júlí síðastliðinn. Eftir veiði síðustu viku er Þverá og Kjarará sem fyrr efst á listanum og eftir mjög góða veiðiviku er veiðin komin í 843 laxa. Veiðin síðast liðna viku var 391 laxar. Ef veiðin í Þverá og Kjarará er borin saman við svipaðan tíma í fyrra (05.07.17) þá höfðu alls veiðst 656 laxar og veiðin er því orðin 187 löxum meiri núna og lofar það góðu.

Í öðru sæti er Urriðafoss í Þjórsá sem er komin í alls 577 laxa, veiðin gekk mjög vel og var vikuveiðin var 186 laxar. Veiðin er orðin 142 löxum meiri en á svipuðum tíma í fyrra og má geta þess að öll þessi veiði kemur á einungis fjórar stangir. 

Skammt undan í þriðja sæti er Norðurá með 557 laxa en vikuveiðin var 207 laxar og er veiðin nær lagi að vera sú sama og í fyrra.

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna. Í sviga fyrir aftan vikuveiði er staða veiði í fyrra 05.07.2017 og plús eða mínus eftir því hvort veiðin sé meiri eða minni en í fyrra.

 

1. Þverá og Kjarará 843 laxar - vikuveiði 391 laxar. (656)+

2. Urriðafoss í Þjórsá 577 laxa - vikuveiði 186 laxar. (435)+

3. Norðurá 557 laxar - vikuveiði 207 laxar. (575)-

4. Miðfjarðará 320 laxar - vikuveiði 143 laxar. (451)-

4. Haffjarðará 320 laxar - vikuveiði 167 laxar. (312)+

5. Blanda 299 laxar - vikuveiðin 124 laxar. (371)-

6. Elliðaárnar 228 laxar - vikuveiði 111 laxar. (238)-

7. Ytri-Rangá 208 laxar - vikuveiði 142 laxar. (365)-

8. Langá 196 laxar - vikuveiði 115 laxar. (331)-

9. Brennan 188 laxar - vikuveiði 87 laxar. (150)+

10. Grímsá og Tunguá 175 laxar - vikuveiði 101 laxar (233)-

 

Nú hafa allar ár opnað fyrir veiði þetta tímabilið að undanskildu Norðlingafljóti sem opnar 18 júlí. Eins og sést á veiðitölum á listanum okkar þá er mismunandi hvernig veiði í ám er samanborið við stöðu veiði í fyrra á svipuðum tíma. Langvarandi úrkomutíð og lágt hitastig hefur ekki beinlínis skapað kjöraðstæður til veiða og fyrir vikið fór veiði sumstaðar fremur hægt af stað og það sést vel á listanum. En veiðin hefur verið að aukast og lofar það góðu með framhaldið. En síðan eru sumar ár með meiri veiði samanborið við síðasta veiðitímabil og jafnvel töluvert meiri veiði í sumum tilvikum.

 

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig veiðin gengur en næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 11 júlí.

 

Athygli er vakin á að það er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum en þeim sem eru á listanum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudagskvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að fá veiðitölu og stangarfjölda. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398