Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
4. júlí 2018

Ályktun Veiðifélags Breiðdæla

Aðalfundur í Veiðifélagi Breiðdæla haldinn í Eyjum í Breiðdal 29. júní 2018 mótmælir harðlega laxeldi í opnum sjókvíum við strendur landsins og skorar á stjórnvöld að grípa nú þegar til viðeigandi aðgerða sem hafa að leiðarljósi náttúruvernd til heilla fyrir framtíð þjóðar.

 

Í Noregi fór nýlega fram uppboð á laxeldisleyfum. Þar seldist leyfið fyrir eitt laxeldistonn á tæpar 2.6 milljónir króna sem renna til ríkis og viðkomandi sveitarfélags. Samkvæmt þessu kostar leyfi fyrir 6000 tonna laxeldi fyrir Laxa ehf í Reyðarfirði 15.4 milljarða í Noregi og sama á við um Fiskeldi Austfjarða ehf í Berufirði. Hér á landi eru sömu leyfi nánast ókeypis. Þessar staðreyndir sýna svart á hvítu hvernig Íslendingar láta norska eldisrisa hafa sig að féþúfu og ætla að fórna villtum laxastofnum til viðbótar sem þykja þó einstæðir og á heimsvísu. Hvað verður um orðspor Íslendinga á alþjóðavettvangi í umhverfsmálum í ljósi slíkra tíðinda?  

Við athugun hefur komið í ljós, að eldisiðjan í Berufirði á vegum Fiskeldis Austfjarða ehf hefur ekki enn öðlast stöðvarskírteini og starfar í skjóli undanþágu skv. gömlum reglum, m.a. um búnað og umgjörð. Þá er hvergi getið um heimildir í leyfum fyrir sömu eldisiðju til þess að nýta frjóan fisk af erlendum uppruna til eldisins eins og skylt er skv. löum og reglum. Sömuleiðis finnast hvergi í útgefnum leyfum fyrir laxeldisiðjuna í Berufirði heimildir til að losa fosfór í sjóinn sem er uppistaðan í spillandi úrgangi frá eldinu. Þá hefur sama eldisiðja aldrei farið í umhverfismat. Af þessu má ljóst vera að eldisiðjan í Berufirði er lögleysa, og trúverðugleiki stofnanna, sem ábyrgð bera á útgáfu leyfa og eftirliti, er í molum og geta því tæpast talist marktækar.

 

Alls staðar í veröldinni, þar sem eldi fer fram í opnum sjókvíum, sleppur fiskur og hefur skaðvænleg áhrif með erfðablöndun, mengun náttúrunnar, lúsafári og skjúkdómasmiti.  Það hefur reynslan líka staðfest á Íslandi.  Nú berast fréttir af lúsafári í eldinu og veldur skaða á lífríkinu. Ólíðandi er að opinber yfirvöld heimili að hella sterku eitri í sjóinn í baráttu við lúsina. Fisksjúkdómanefnd mælir gegn slíkum aðferðum. Þá hefur Erfðanefnd landbúnaðarins varað við skaðvænlegum afleiðingum af fiskeldi í opnum sjókvíum „og ráðleggur stjórnvöldum að stöðva útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum“.

 

Í Noregi og víðar í nágrannalöndum eru nú settar upp metnaðarfullar áætlanir í ljósi reynslunnar, að allt eldi fari í lokuð kerfi. Við krefjumst þess, að hér á landi verði það gert líka.

 

Nú hafa verið gefin út leyfi fyrir 12 þúsund tonnum til eldis af laxi og regnbogasilungi í opnum sjókvíum á Austjörðum. En sótt hefur verið um viðbótarleyfi fyrir 54 þúsund tonna eldi í austfirskum fjörðum. Hámark eldis í opnum sjókvíum samkvæmt útgefnu áhættumati Hafrannsóknarstofnunnar fyrir Austfirði eru 21 þúsund tonn. Við vörum við þessari ógn gagnvart lífríkinu og krefjumst, að allt eldi fari fram í lokuðum kerfum og bannað verði að nota frjóan fisk til eldis af útlenskum uppruna.

 

Fiskeldi í opnum sjókvíum við strendur landsins með frjóum fiski af norskum uppruna eru hamfarir gegn náttúrunni og íslenskum hagsmunum.