Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. júní 2018

Nýjar veiðitölur

Flestar ár hafa opnað fyrir veiði þetta tímabilið og þessa vikuna og hefur veiðin gengið misvel eins og gengur og gerist.

 

Efst á listanum okkar er Þverá og Kjarará en veiðin gekk afar vel síðustu veiðiviku og er komin í alls 452 laxa en alls veiddust 214 laxar sl. viku. Veiðin á nánast sama tíma í fyrra (28.06) var komin í 408 laxa og hafa því veiðst 44 laxar meira þetta veiðitímabilið.

 

Í öðru sæti er Urriðafoss í Þjórsá með alls 391 laxa en veiðin hefur gengið vel og veiddust alls 113 laxar í síðastu veiðiviku. Borið saman við nánast sama tímabil í fyrra þá höfðu veiðst 365 laxar og hafa því veiðst 26 löxum meira þetta veiðitímabilið. Hafa ber í huga að veitt var á tvær stangir í fyrra en þeim var fjölgað í fjórar stangir þetta veiðitímabilið.

 

Í þriðja sæti er Miðfjarðará með alls 177 laxa en alls veiddust 82 laxar síðustu viku. Hún fór fremur hægt af stað samanborið við veiðina í fyrra en ekki er ólíklegt að veiðin taki góðan kipp um leið og skilyrði til veiða verða hagstæðari.

Hér er listi yfir tíu efstu árnar þessa veiðivikuna:

 

1. Þverá og Kjarará 452 laxar - vikuveiði 214 laxar.

 

2. Urriðafoss í Þjórsá 391 laxa - vikuveiði 113 laxar.

 

3. Miðfjarðará 177 laxar - vikuveiði 82 laxar.

 

4. Blanda 175 laxar - vikuveiðin 57 laxar.

 

5. Norðurá 175 laxar - (veiðitölur ókomnar)

 

6. Haffjarðará  153 laxar - vikuveiði 78 laxar.

 

7. Elliðaárnar 117 laxar - vikuveiði 97 laxar .

 

8. Brennan 101 laxar - vikuveiði 25 laxar.

 

9. Langá 81 laxar - vikuveiði 61 laxar.

 

10. Ytri-Rangá 66 laxar - vikuveiði 48 laxar.

 

Nú hafa flestar ár opnað fyrir veiði þetta tímabilið en nokkrar eiga þó eftir að opna og má þar nefna Selá í Vopnafirði sem opnar á morgun fimmtudag, Nessvæðið í Laxá í Aðaldal sem opnar 30 júní, Breiðdalsá og Jöklu sem opna næstkomandi sunnudag 1 júlí og jafnframt má nefna Norðlingafljótið sem opnar 18 júlí.

 

Það er að bera í bakkafullan lækinn, ef svo má að orði komast, að tilgreina aðstæður til veiða hvað vatnsbúskap varðar. En í stuttu máli má segja að það sé víðast hvar töluvert vatn og litlar líkur á að laxfiskar eigi erfitt uppgöngu vegna skorts á því. Sumstaðar voru skilyrði til veiða dræm sökum vatnavaxta í liðinni veiðiviku.

 

Fyrir forvitnis sakir er fróðlegt að rýna aðeins í vatnshæðarmæla Veðurstofu Íslands sem staðsettir eru víða um land og mæla vatnshæð, rennsli og lofthita.

Fyrir valinu er svæði sem margir veiðimenn þekkja vel til sem er Stekkur í Norðurá en þar hefur vatnsbúskapur verið mældur í fjölmörg ár. Á viku tímabili á síðasta ári, 20.06.2017 til 27.06.2017, mældist rennsli frá tæpum 9 rúmmetrum vatns á sekúndu upp í tæpa 17 m3/s. Ef vatnsennsli er borið saman við sama tímabil á þessu ári kemur í ljós að rennsli hefur mælst frá um 13 m3/s upp í rúma 52 m3/s.

 

Til gamans má geta þess að meðal sumarrennsli í Norðurá í Borgarfirði er um 10 m3/s en í lok miðvikudags var rennsli rúmlega þrefalt það eða um 34 m3/s.