Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
13. júní 2018

Nýjar veiðitölur

Veiðin hefur farið fremur rólega af stað í þeim ám sem hafa opnað þetta árið en samkvæmt viðmælendum okkar eru laxar að koma vel haldnir úr hafi. Smálax virðist vera að skila sér í einhverjum mæli og er það vel og veit á gott. Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sú langvarandi úrkomutíð sem einkennt hefur þetta vor og sumar. Fyrir vikið er töluvert vatn í ánum en þó ekki í þeim mæli að það hafi mikil áhrif á veiði.

 

Veiðin í Urriðafoss í Þjórsá er komin í 211 laxa og vikuveiðin var 88 laxar. Þar er búið að fjölga stöngum og er nú veitt á fjórar stangir og er fimm laxa kvóti á stöng. Á nánast sama tíma í fyrra var veiðin komin í 172 laxa en þá voru tvær stangir leyfðar. 

 

Þess má geta að tilraunaveiðar á stöng byrjuðu þetta árið á nýju svæði sem er að Þjórsártúni en það er á nánast sama svæði til móts við Urriðafoss en tilheyrir austurbakkanum. Veiðin þar er á sér svæði og aðskilin Urriðafossi.

 

Norðurá er komin í 95 laxa og vikuveiðin 69 laxar en athygli skal vakin á því að enn er veitt á átta stangir. Í Blöndu er enn veit á fjórar stangir og er veiðin komin í 52 laxa og vikuveiði var 34 laxar. Veiðitala mun berast úr Þverá og Kjarará á morgun. Veiði hefur hafist á fleiri stöðum og má þar nefna Straumana og Brennu í Hvítá.

 

Á næstu dögum og vikum opna ár hver af annarri og verður áhugavert að fylgjast með. Söfnun veiðitalna verður að viku liðinni miðvikudaginn 20 júní en þá hafa fleiri ár opnað og verður þá hægt að rýna betur í tölurnar og bera saman. 

 

Þess má geta að við höfum átt mjög gott samstarf á liðnum árum við alla þá sem hafa liðsinnt okkur í þessari vikulegu söfnun veiðitalna. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt og viljum við þakka kærlega fyrir þeirra framlag.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398