Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
19. apríl 2018

Vona að nýtt áhættumat styðji eldi í Djúpinu

Von er á nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar laxastofna í sumar. Þetta kom fram á fjölmennum íbúafundi í Bolungarvík í gær. Heimamenn vilja að gefið verði grænt ljós á laxeldi í Ísafjarðardjúpi og er bæjarstjórinn í Bolungarvík bjartsýnn á að það verði gert.

 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, átti frumkvæði að fundinum, og ræddi við heimamenn um stöðu fiskeldis og stefnu stjórnvalda. Þá fóru stjórnendur Hafrannsóknastofnunar yfir áherslur sínar í málaflokknum og kynntu forsendur fyrir áhættumati vegna erfðablöndunar. 

Samkvæmt niðurstöðu áhættumats, sem kynnt var í fyrra, þola Vestfirðir 50 þúsund tonna eldi á frjóum laxi, án þess að skaða villta laxastofna. Hafrannsóknastofnun lagðist þó gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi, sem olli vonbrigðum margra, enda höfðu þrjú fyrirtæki tilkynnt um eldi í Djúpinu. 

 

Endurskoðuðu mati ljúki í sumar

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, segir að um 250 manns hafi fyllt félagsheimilið í gærkvöldi. Fjörugar umræður hafi skapast og heimamenn viljað svör frá forstjóra Hafrannsóknastofnunar um það hvenær von væri á nýju endurskoðuðu áhættumati. „Og ég held ég geti sagt fullum fetum að hann hafi svarað að nýtt áhættumat komi á þessu ári, eða ekki síðar en í sumar,“ segir Jón Páll.

 

Kanna hvort mótvægisaðgerðir dugi til

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við fréttastofu, að frá upphafi hafi verið stefnt að því að endurskoða áhættumatið reglulega. Sú vinna sé í gangi. Næsta skref sé að kanna hvort mótvægisaðgerðir geti opnað fyrir eldi í Ísafjarðardjúpi. Jón Páll er bjartsýnn á að það gangi. „Og að með þessum mótvægisaðgerðum og nýju áhættumati náist þessi sátt sem allir vilja að verði um þessi mál og við getum bara byrjað að byggja upp,“ segir Jón Páll.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is