Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. apríl 2018

Neikvætt laxeldisálit Skipulagsstofnunar í garð Háafells dregið til baka

Vestfirski fréttavefurinn BB.is segir frá því að Skipulagsstofnun hafi í gær gefið frá sér álit vegna 6800 tonna framleiðslu Háafells á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Í álitinu komi fram að stofnunin leggist gegn eldi á frjóum laxi á svæðinu, að áhrif laxeldis á villta sofna séu líkleg til að verða verulega neikvæð og ekki eigi að leyfa eldi á frjóum laxi á svæðinu miðað við fyrirliggjandi áhættumat, líkt og Hafrannsóknarstofnun komst að einnig. Þá er tekið fram að helstu neikvæðu áhrif slíks laxeldis séu áhrifin á villta laxastofna, áhætta á erfðablöndun, aukin áhætta á fisksjúkdómum eins og laxalús, áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar.

 

Í álitinu er þó einnig tekið fram að matsskýrsla Háafells uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að þeim hafi verið lýst á fullnægjandi hátt.

 

Þegar Eyjan hafði samband við Skipulagsstofnun í morgun til að nálgast álitið, kom í ljós að álitið hafði verið dregið til baka, að áeggjan Háafells, þar sem fyrirtækið ætlaði að leggja fram frekari upplýsingar. Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Háafells vegna málsins.

 

Háafell hefur sóst eftir leyfi til laxeldis á svæðinu í nokkurn tíma, en ekki fengið. Starfsleyfi Háafells var ógilt um mitt ár í fyrra af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Háafell hugðist halda áfram starfsemi sinni þrátt fyrir ógildinguna og bjuggust við að fá nýtt leyfi  „á næstunni“. Það leyfi hefur enn ekki fengist.

 

Fyrirtækið, sem er dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins Gunnvarar hf, sagði sig úr Landssambandi fiskeldisstöðva í fyrra, þar sem fulltrúar sambandsins höfðu athugasemdarlaust skrifað undir skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi, þar sem lagt var til að áhættumat Hafrannsóknarstofnunar yrði leiðbeinandi  í skipulagningu á fiskeldi á Íslandi. Í því áhættumati er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Eyjan.is