Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
22. mars 2018

Stórfelldur laxadauði hjá Arnarlaxi vegna sjávarkulda

Stórfelldur laxadauði hefur átt sér stað í laxeldiskvíum Arnarlax í Arnarfirði og Tálknafirði síðustu daga vegna mikils sjávarkulda. Tveir bátar hafa unnið við það nær stanslaust á Tálknafirði að flytja dauðan lax úr kvíunum í firðinum og til hafnar þaðan sem keyrt er með fiskinn í flutningabílum til Hafnarfjarðar og hann nýttur í gæludýrafóður. Þetta herma heimildir Stundarinnar. 

Dauður lax í karavís Í körunum á myndinni er dauður eldislax sem fluttur er til Hafnarfjarðar þar sem hann er notaður í dýrafóður. Myndin er tekin á Tálknafirði fyrir nokkrum dögum.

„Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að fara nánar yfir ráðstafanir rekstraraðila í eftirliti.“ Mynd ©Stundin

Dauði eldislaxa vegna sjávarkulda er vandamál sem komið getur upp í laxeldi og hefur það áður leitt til tjóns í íslensku laxeldi í sjó í gegnum tíðina. Þetta var til dæmis eitt af helstu vandamálunum í laxeldinu sem reynt var við strendur landsins á seinni helmingi tuttugustu aldarinnar. Eitt af því sem gerist við mikinn sjávarkulda er  að eldislaxinn verður viðkvæmari þar sem hann hættir að éta vegna kuldans og hann getur hlotið hreistursskemmdir. Niðurstaðan er: Stórfelldur laxadauði. Fóðrið sem dælt er í eldiskvíar nýtist því heldur ekki eins vel og þegar hlýrra er og laxinn étur eins og vera ber og sest fóðrið því í meira mæli á sjávarbotninn.  

 

Hafa ekki svarað spurningum

Arnarlax verst, eins og er, allra frétta af málinu. Stundin spurði Arnarlax um málið á föstudaginn var en þá sagði Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að hann myndi svara fyrirspurninni um málið eftir helgi. „Við munum svara þessu eftir helgina.“ Þegar Stundin bað Víking um svör um málið nú í morgun sagði hann í tölvupósti: „Svör okkar munu berast í dag.“

 

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, hefur heldur ekki svarað fyrirspurnum Stundarinnar um málið.  

 

Stundin getur ekki fullyrt hversu mikið af laxi hefur drepist hjá Arnarlaxi vegna málsins en samkvæmt einni heimild er um að ræða tugi tonna á dag, jafnvel um 100 tonna, sem flutt hafa verið á land í Tálknafirði með bátunum tveimur um margra daga skeið. 

 

„Þau svör fengust að dauði hefði aukist vegna kulda og meðhöndlunar á fiski í sláturkví.“

 

Mikill fugl vomandi yfir kvíunum

Umhverfisstofnun staðfestir að stofnunin hafi átt í samskiptum við Arnarlax vegna málsins. Þetta segir Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar. Svo virðist sem frumkvæðið að þeim samskiptum hafi komið frá Umhverfisstofnun eftir að ábending barst um að mikið fuglager sæist vomandi yfir eldiskvíum Arnarlax í leit að æti. Í kjölfarið, þann 7. mars, sendi Umhverfisstofnun bréf til Arnarlax um málið og fékk þau svör að eitthvað af eldislaxi hefði drepist í kvíum fyrirtækisins. 

 

Orðrétt segir í svari Björns fyrir hönd Umhverfisstofnunar: „Umhverfisstofnun sendi Arnarlaxi fyrirspurn þann 7. mars sl. vegna ábendingar sem barst stofnuninni um fuglager við athafnasvæði Arnarlax í Hringsdal. Þau svör fengust að dauði hefði aukist vegna kulda og meðhöndlunar á fiski í sláturkví. Fram kom að dauði fiskurinn safnaðist fyrir í botni kvíar og honum væri dælt um borð í báta Arnarlax.  Við þetta getur myndast fituskán á yfirborði kvíar sem fuglar reyna að ná í.  Lífrænum úrgangi er samkvæmt því sem fram kemur í svörum frá Arnarlaxi safnað í lokaða frystigáma og hann svo nýttur í mjölvinnslu. Allar kvíar Arnarlax eiga að vera með fuglanet, en netið er fjarlægt meðan tæming stendur yfir.“ 

 

Taka eftirlit Arnarlax til skoðunar

Umhverfisstofnun segir að stofnunin muni í kjölfarið fari nánar yfir eftirlitsstarf Arnarlax með eldi sínu: „Ofangreint skýrir samkvæmt svörum frá Arnarlaxi aukna umferð/vinnu við svæðið og ágang fugla. Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að fara nánar yfir ráðstafanir rekstraraðila í eftirliti. Rekstraraðili starfar eftir ASC umhverfisstaðlinum sem er alþjóða staðall í fiskeldi og gerir kröfur um góðar skráningar á framleiðslu og afföllum, þar með talinn dauðfisk,“ segir í skriflegu svari Umhverfisstofnunar. 

 

Tekið skal fram að svar Umhverfisstofnun á eingöngu við um laxadauðann í Arnarfirði en ekki Tálknafirði.

 

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með þeim hluta starfsemi laxeldisfyrirtækja sem lýtur að dauðfiski svokölluðum, þegar eldislaxinn drepst í kvíunum og getur mögulega valdið náttúruspjöllum. Hreinsa ber laxinn úr kvíunum og eiga eldisfyrirtækin að koma honum í land sem fyrst. Í þessu tilfelli virðist frumkvæði Umhverfisstofnunar hafa byggt á ábendingu utanaðkomandi aðila en það var ekki þannig að Arnarlax tilkynnti stofnuninni um laxadauðinn líkt og fyrirtækið á að gera.

 

Matvælastofnun er einnig meðvituð um laxadauðann samkvæmt heimildum Stundarinnar. Svör um málið höfðu ekki borist frá Matvælastofnun þegar frétt Stundarinnar var birt 

 

Þessa frétt eftir Inga Frey Vilhjálmsson er að finna á vefnum Stundin.is