Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. mars 2018

Kröfu laxeldis um frávísun hafnað

Héraðsdómur Reykjaness hafnaði í dag kröfu Laxa fiskeldis ehf. og Matvælastofnunar um að vísa frá máli á hendur þeim, er varðar rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi í Reyðarfiði. Málsóknarfélagið Náttúruvernd tvö höfðar málið.
 

Laxar fiskeldi ehf. er í eigu norska félagsins Masoval Fiskeoppdrett AS og fékk leyfið árið 2012. Málsóknarfélagið samanstendur af nokkrum veiðifélögum og krefst þess að rekstrarleyfið verði ógilt þar sem hlunnindi veiðifélaganna skerðist ef laxeldið verður að veruleika.

 

Í dag var tekin fyrir sú krafa Laxa fiskeldis og Matvælastofnunar að vísa málinu frá. Vildu stefndu láta vísa því frá, meðal annars á þeim forsendum að veiðifélög geti ekki haft lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins heldur aðeins handhafar veiðiréttar, það er landeigendur. 
 

Í úrskurðinum segir að ekki sé hægt að útiloka að svo stöddu að veiðifélögin geti átt lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Kröfu um frávísun var því hafnað. Að málsóknarfélaginu standa Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár, Veiðifélag Breiðdælinga og Veiðifélag Vesturdalsár. Laxar fiskeldi fá frest til 26. apríl til að skila greinargerð um úrskurðinn. 

 

Laxar fiskeldi fékk starfsleyfi frá Umhverfisstofnun í janúar 2012 fyrir 6.000 tonna ársframleiðslu. Í mars sama ár fékk fyrirtækið rekstrarleyfi fyrir starfseminni frá Fiskistofu, sem þá sá um slíkar leyfisveitingar. Slíkt er nú á borði Matvælastofnunar.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is