Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. mars 2018

Lokaðar sjókvíar helsta lausnin í baráttunni við laxalús

Sigríður Gísladóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að lokaðar sjókvíar séu helsta lausn í baráttunni við laxalús í sjókvíaeldi. Sigríður hélt fyrirlestur í Vísindaporti Háskólasetursins á Ísafirði á dögunum. Inntak fyrirlestursins var um fyrirbyggjandi leiðir og leiðir til að meðhöndla laxalús í sjókvíaeldi. Lokaðar sjókvíar eru ekki notaðar í fiskeldi hér við land en forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækja segjast fylgjast spenntir með tækniþróun þeirrar aðferðar og hafa ekki útilokað að taka upp þá aðferð í framtíðinni. 

 

 

Sigríður er einnig mjög hrifin af því að nota hrognkelsi sem svokallaða lúsaætu. „Hrognkelsið, eða lífræna lúsaætan, er góð lausn og spennandi kostur. En það er ekki nein lækning til við lúsinni. Í fyrra var fyrsta árið í langan tíma í Noregi sem var lítið notað af lyfjum við lús, en það af því að lúsin er orðin ónæm fyrir flestum lyfjum. Áherslan þarf að vera þannig að það sé búið að reyna allt áður en lyfjum er beitt.

 

Sigríður segir að horft sé til Noregs varðandi þróun á aðferðum til notkunnar gegn lúsinni. „Í Noregi er unnið með samspil margra þátta og lyfjameðferðir eru ennþá með í þeim lausnum, en þeim tilfellum hefur fækkað. Þær eru bara hafðar í verkfærakassanum ef á þarf að halda. Lokaðar sjókvíar eru ein lausn í baráttunni við laxalúsina. Ég veit hreinlega ekki af hverju það er ekki notað meira hér á Íslandi, sennilega af því það er rosalega dýrt og svarar ekki kostnaði. Tæknin er líka ekki komin nógu langt og orðin nógu góð, en sú aðferð myndi leysa ýmis vandamál.“

 

Þessa frétt er að finna í Fréttablaðinu.