Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
24. febrúar 2018

Áfram með mál sjókvía Arnarlax til skoðunar

Matvælastofnun segir ekki hafið yfir allan vafa hvort fiskur hafi sloppið úr eldiskví í Arnarfirði. Stofnunin telji það þó ólíklegt. Vegna veðurs hafa eftirlitsmenn stofnunarinnar ekki enn kannað skemmdir á sjókvíum Arnarlax, nú 12 dögum eftir atvikið.
 

 

Misvísandi fréttir

Arnarlax tilkynnti Matvælastofnun um skemmdir á tveimur sjókvíum Tálknafirði og Arnarfirði þann 12. febrúar. Matvælastofnun sendi frá sér tilkynningu í gær um að Arnarlax hefði brugðist rétt við og að ólíklegt væri að fiskur hefði sloppið úr kvíunum - án þess þó að hafa sent eftirlitsmann á staðinn. „Það var mikið af misvísandi fréttum um málið og við höfðum gögn um málið og okkur bara skylda til að koma fram með rétt gögn. Þetta var í raun stöðufrétt um þau gögn sem við vorum með í höndunum,“ segir Erna Karen Óskarsdóttir, fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun. Erna Karen vísar til dæmis til frétta af því að sjókvíin í Tálknafirði hefði sokkið sem reyndist ekki rétt samkvæmt skýrslu og myndum frá Arnarlaxi. Þá skoðaði MAST gögn frá köfunarþjónustu sem starfar fyrir Arnarlax.

 

Ekki haldið vestur vegna veðurs

„Það væri eðlilegt að fara á staðinn, já, en það hefur verið mikið óveður á landinu og það er ekki nóg að komast á staðinn heldur líka að komast út á sjó og kanna ástandið og veðrið í síðustu viku og þessari hefur ekki boðið uppá það.“ Þá bendir Erna Karen á að Matvælastofnun sé ekki skyldug til að fara í eftirlit þegar tilkynningar berast. „Við gerum það en ekki ef við þurfum að stofna starfsfólki okkar í hættu,“ segir Erna Karen. Þá bendir Erna Karen að Fiskistofa fari með mál mögulegra slysasleppinga.

 

Stærðargöt á neti sjókvíar

Í skýrslum kafara má sjá göt frá þremur upp í 30 sentimetra á kví við Hringsdal í Arnarfirði. Matvælastofnun telur ólíklegt að fiskur hafi sloppið þar sem götin hafi myndast þar sem kvíin hékk á krókum. Götin hafi verið ofansjávar en var slakað niður í sjó til að gera við þau og taka myndir. „Það er aldrei hafið yfir allan vafa að enginn fiskur hafi sloppið út. Og Matvælastofnun kemur ekki með tilkynningu um að engar líkur séu á að fiskur hafi sloppið út,“ segir Erna Karen.

 

Málinu ekki lokið

Á næstu dögum á að slátra upp úr kvínni í Hringsdal og þá ættu sláturtölur að geta varpað ljósi á hvort slysaslepping hafi átt sér stað.  „Og við erum á leið í eftirlit á mánudagin og þá fáum við tölur úr báðum kvíum og getum metið þetta betur. En málinu er ekki lokið.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is