Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. febrúar 2018

Arnarlax biðst afsökunar út af slysinu í Tálknafirði

Arnarlax hefur sent Umhverfisstofnun afsökunarbeiðni vegna þess að fyrirtækið tilkynnti ekki stofnuninni um það þegar laxeldiskví fyrirtækisins sökk að hluta til í sæ fyrr í mánuðinum eftir að flotholt á henni brotnaði. Um 50 þúsund laxar drápust við flutninginn yfir í nýja kví.

 

Afsökunarbeiðni og tilkynning um bætt verklag Arnarlax hefur beðið Umhverfisstofnun afsökunar á að hafa ekki tilkynnt stofnuninni um slys í starfsemi fyrirtækisins í Tálknafirði. Víkingur Gunnarsson er framkvæmdastjóri Arnarlax.  

„Við biðjumst velvirðingar á að tilkynning var ekki send á alla aðila.  Í framhaldi af þessu atviki höfum við skerpt á og farið yfir verklag okkar.   Framvegis verður passað upp á  að UST [Umhverfisstofnun], MAST [Matvælastofnun] og Fiskistofa (ef við á) fái tilkynningar um óhöpp í rekstrinum,“ segir í tölvupósti frá Þóru Dögg Jörundsdóttur, gæðastjóra Arnarlax, til Umhverfisstofnunar um slysið sem átti sér stað hjá Arnarlaxi í Tálknafirði fyrr í mánuðinum þar sem flotholt eldiskvíar brotnaði með þeim afleiðingum að hluti hennar sökk í sæ.

 

Stundin greindi frá slysinu síðastliðinn mánudag sem og þeirri staðreynd að Umhverfisstofnun fékk ekki tilkynningu um málið, líkt og Stundin greindi frá. „Get nú staðfest að við höfum ekki fengið tilkynningu um rifna kví í Tálknafirði,“ sagði í svari frá Birni Þorlákssyni, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, við spurningu Stundarinnar um hvort tilkynning um málið hafi borist til stofnunarinnar. 

 

Möguleg mengunarslys, þar sem möguleiki er að eldislax sleppi úr sjókvíum, ber að tilkynna til Umhverfisstofnunar en þetta gerði Arnarlax ekki þar sem fyrirtækið mat það sem svo að engar slysasleppingar hefðu átt sér stað. Engin rannsókn opinberra aðila á slysinu hefur hins vegar átt sér stað og þar með er ekki hægt að staðfesta það mat Arnarlax. 

 

„Við höfum skráð rúmlega 50 þús.  dauða fiska á dögunum eftir flutning.“ 

 

Um 500 tonn af eldislaxi voru í kvínni og eftir bráðabirgðaviðgerðir tók um þrjá daga að dæla eldislaxinum yfir í nýja kví. Stór hluti af laxinum dó við flutninginn og segir Þóra í tölvupóstinum. „Hinsvegar jukust afföllin hjá okkur töluvert við flutninginn á fiskinum í aðrar kvíar.  Hann þolir illa meðhöndlun þegar hitastig er eins lágt og nú er.   Við höfumskráð rúmlega 50 þús.  dauða fiska á dögunum eftir flutning.   Sá fiskur er meðhöndlaður á sama hátt og allur dauður fiskur hjá fyrirtækinu.  Honum er safnað í lokuð ílát og geymdur í frystigámi þar til þjónustuðili okkar S. Iceland sækir og kemur til Hafnarfjarðar í vinnslu,“ segir í tölvupóstinum til Umhverfisstofnunar. Lax sem drepst í starfsemi Arnarlax er nýttur í dýrafóður.

 

Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, segir í tölvupósti til Stundarinnar að stofnunin fagni viðbrögðum Arnarlax. Hann segir að Umhverfisstofnun vonist „til að þetta mál hafi orðið lexía sem muni bæta viðbrögð og verkferla, enda fylgi því mikil ábyrgð fyrir fyrirtæki að halda úti mengandi starfsemi eins og fiskeldi“.  Björn segir jafnframt að óljóst sé hvort einhver eftirmál verði vegna af handvömm Arnarlax í málinu. „Við lýsum ánægju með að fyrirtækið hafi brugðist við athugasemdum okkar en á þessum tímapunkti er óljóst hvort eða hvaða eftirmál kunni að verða.

 

Þessa frétt eftir Inga Frey Vilhjálmsson er að finna á vefnum Stundin.is en þar er jafnframt hægt að kaupa áskrift af vefmiðlinum