Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
19. febrúar 2018

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Laxeldiskví með um 500 tonnum af eldislaxi sökk í Tálknafirði. Hluti laxanna drapst því flytja þurfti fiskinn yfir í aðra kví. Arnarlax segir engan eldislax hafi sloppið úr kvínni. Krísufundur um málið hjá Arnarlaxi.

 

Eldiskví frá fyrirtækinu Arnarlaxi, stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands, sökk í Tálknafirði fyrir nokkrum dögum. Á milli 500 og 600 tonn af eldislaxi voru í kvínni og þurfi að dæla laxinum upp úr henni og færa yfir í aðra kví. Talsverð afföll urðu á laxinum sem var í kvínni og var dauði laxinn fluttur í land að sögn Jónasar Snæbjörnssonar, yfirmanns Arnarlax á Tálknafirði. Málið er til umræðu á fundi hjá Arnarlaxi sem nú stendur yfir. „Við erum að funda um þetta núna til að reyna að átta okkur á því hversu mikill skaðinn varð.“ Þegar færa þarf eldislax á milli kvía drepst hluti laxsins alltaf út af raskinu af flutningnum á fisknum. 

 

„Það er búið að tilkynna þetta til Umhverfisstofnunar er mér sagt“

 

Segir engan lax hafa sloppið

Eitt það hættulegasta við slík slys í laxeldi er að eldislaxinn sleppi út í sjó og blandist við íslenska laxastofninn með hættunni á erfðablöndun á milli þessara ólíku tegunda. Jónas segir að hann telji að engir laxar hafi sloppið úr kvínni og að ekkert bendi til að þetta hafi gerst. „Nei, það er líklegt að það hafi ekki orðið.“

 

Þetta er eitt af því sem náttúruverndarsinnar á Íslandi eru hvað hræddastir við í laxeldinu á Íslandi þar sem þetta getur skemmt villta, íslenska laxastofninn með erfðablöndun.

 

Að sögn Jónasar en ekki liggur fyrir hversu mikið af laxinum í kvínni drapst. „Það var einhver hluti sem drapst já en það er óljóst hversu mikið. […] „Það er búið að tilkynna þetta til Umhverfisstofnunar er mér sagt,“ segir Jónas. Laxinn sem drepst er fluttur í land og fer megnið af honum í dýrafóður.

 

Óljóst er hvernig óhappið bar að samkvæmt því sem Jónas segir, og eins starfsmaður Arnarlax á Tálknafirði, Ingólfur Sigfússon, en samkvæmt einni heimild sigldi þjónustubátur frá Arnarlaxi á kvínna og skemmdi hana með þeim afleiðingum að hún sökk. 

 

Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki á Íslandi og er í eigu norska eldisfyrirtækisins Salmar AS að stærstu leyti.  

 

„Get nú staðfest að við höfum ekki fengið tilkynningu um rifna kví í Tálknafirði“

 

Umhverfisstofnun fékk ekki tilkynningu

Umhverfisstofnun segir að stofnunin hafi ekki fengið tilkynningu um slysið hjá Arnarlaxi. „Get nú staðfest að við höfum ekki fengið tilkynningu um rifna kví í Tálknafirði,“ segir í svari frá Birni Þorlákssyni, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, við spurningu Stundarinnar um hvort tilkynning um málið hafi borist til stofnunarinnar. 

 

Matvælastofnun og Fiskistofa eiga einnig að fá tilkynningar þegar slík slys eiga sér stað hjá laxeldisfyrirtækjum á Íslandi þar sem meðal annars möguleg erfðablöndun getur átt sér stað ef eldislaxinn sleppur og blandast mögulega við villta, íslenska laxastofna.  

 

„Ég veit ekki til þess að gat hafi komið á pokann.“

 

Segir ekkert gat hafa verið á kvínni

Ingólfur Sigfússon, starfsmaður hjá Arnarlaxi á Tálknafirði, segir að hann telji ekki heldur að nokkrir laxar hafi sloppið. Hann segir að hann viti ekki hvernig slysið bar að. „Þetta var ekkert stórt, ekki þannig. Kvíin sökk ekkert alveg heldur seig bara. Ég veit ekki til þess nokkrir að laxar hafi sloppið út, það á ekkert að geta gerst. Það þurfti bara að skipta um kví. Ég veit ekki til þess að gat hafi komið á pokann. Það var ekkert svoleiðis,“ segir Ingólfur.  

 

Ingólfur segist ekki vita til þess að dauðir laxar hafi flotið á land, líkt og ein heimild Stundarinnar hermir. „Laxarnir drápust út af því að það þurfti að flytja laxinn, hann er svo viðkvæmur núna í kuldanum. Þetta er eitthvað sem menn gera yfirleitt aldrei þegar hitastigið í sjónum er orðið svona lágt. Við erum ekki komnir með töluna um það hvað þetta var mikið.“

 

Ingólfur segist ekki vita hvernig slysið bar að. „Ég eiginlega veit það ekki því ég var ekki á vakt. Ég kom bara hingað til að tæma kvínna og ganga frá þessu drasli. Þá var búið að forða öllum skaða, nema þeim laxi sem drapst. En það er sá fórnarkostnaður sem maður greiðir,“ segir Ingólfur. 

 

Ekki náðist í Víking Gunnarsson, framkvæmdastjóra Arnarlax, til að spyrja hann um málið.  Stundin náði ekki heldur í Kjartan Ólafsson, stjórnarformann Arnarlax, til að spyrja hann um málið. 

 

Þessa frétt eftir Inga Frey Vilhjálmsson er að finna á vefnum Stundin.is