Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
14. febrúar 2018

Stað­hæfingarnar öfug­mæli

Frumvarpsdrög um fiskeldislög ganga þvert á stefnuyfirlýsingu ríkistjórnarinnar að mati lögfræðings náttúruverndarsamtaka. Ráðlegging Erfðanefndar landbúnaðarins hunsuð í drögunum.

 

Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ásamt tíu veiðifélög og veiðiréttarhafar hafa gert athugasemdir við drög að lagafrumvarpi um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

 

Athugasemd hópsins beinist að í frumvarpsdrögunum er hvergi getið um ráðleggingu Erfðanefndar landbúnaðarins sem send var til stjórnvalda síðastliðið sumar um að stöðva skuli allar leyfisveitingar til laxeldis í sjókvíum með frjóum laxi af erlendum uppruna. 

Erfðanefnd landbúnaðarins er sérfræðinganefnd skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hefur meðal annars það verkefni að veita ráðgjöf til hagsmunaaðila og stjórnvalda um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði og falla ferskvatnsfiskar þar undir.

 

Einnig er gerð athugasemd við að eftirlit með eldisfyrirækjunum skal aðallega vera innra eftirlit rekstraraðila og að ekkert sé nefnt um erlenda eignaraðild að sjókvíaeldi. Full ástæða þykir að mati hópsins að skoða innrás norskra eldisfyrirtækja hér á landi með nánast ókeypis afnotum af íslensku hafsvæði.

 

Óttar Yngvason, lögfræðingur þeirra sem gera athugasemdirnar, segir að drögin gangi þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

 

 „Framkomin drög ganga í meginatriðum þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og eru síst vænleg til að byggja upp sjókvíaeldi í sátt við umhverfið. Því er haldið fram í greinargerðinni, að með þessum lagabreytingum sé stuðlað að ábyrgu fiskeldi, þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis sé höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna.  Þessi staðhæfing er hrein öfugmæli eins og kemur fram í athugasemdunum. Reyndar kemur fram, að markmiðið með drögunum sé að styrkja lagaumgjörð fiskeldis og er það nokkurt sannmæli,” segir Óttar. 

 

Þessa frétt er að finna í Fréttablaðinu.