Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. febrúar 2018

Framleiðslan yfir 20 þúsund tonn

Fiskeldi hér á landi hefur tvöfaldast á tveimur árum. Breyting á löggjöf er í bígerð.

 

Árið 2017 voru framleidd meira en ellefu þúsund tonn af eldislaxi, nærri 4.500 tonn af bleikju og ríflega 4.600 tonn af regnbogasilungi. Breyting á löggjöf er í bígerð.

Fiskeldisframleiðslan hér á landi hefur meira en tvöfaldast á síðustu tveimur árum og var komin upp í 20.776 tonn á síðasta ári. Þetta er í fyrsta sinn sem framleiðslan fer yfir 20 þúsund tonna markið.

 

Þetta kemur fram í tölum frá Matvælastofnun, sem birtar verða í væntanlegri ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma. Fréttavefurinn Undercurrentnews.com skýrði frá þessu í síðustu viku.

 

Árið 2015 nam framleiðslan 8.290 tonnum og 2016 var hún 15.061 tonn. Í mörg ár þar á undan hafði hún staðið í fimm til sjö þúsund tonnum.

 

Laxeldið er fyrirferðarmest og nam 11. 265 tonnum á árinu 2017, og hafði þá aukist hratt síðustu tvö árin, var 3.260 tonn árið 2015 og 8.420 tonn árið 2016. Bleikjueldi hefur verið nokkuð stöðugt árum saman, en aukist nokkuð og komst framleiðslan upp í 4.454 tonn á síðasta ári.

 

Eldi á regnbogasilungi hefur síðan aukist hratt, hafði árum saman verið innan við þúsund tonn en fór yfir tvö þúsund tonn árið 2016 og var komið upp i 4.628 tonn á síðasta ári.

Hafrannsóknarstofnun sendi á síðasta ári frá sér áhættumat fyrir fiskeldi og komst að þeirri niðurstöðu að framleiðslan ætti að geta farið upp í 71 þúsund tonn á ári.

 

Lagabreytingar í bígerð
Drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um fiskeldi eru nú í umsagnarferli og hefur frestur verið gefinn til 9. febrúar.

 

Meðal nýmæla í frumvarpinu eru ákvæði um áhættumat erfðablöndunar sem Hafrannsóknarstofnun er falið að gefa út ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti.

 

Í athugasemdum við frumvarpið er stefna stjórnvalda sögð vera sú að „gæta ýtrustu varúðar við uppbyggingu fiskeldis og byggja ákvarðanir stjórnvalda um framþróun fiskeldis á ráðgjöf vísindamanna.“ Þess vegna sé nauðsynlegt að „lögfesta áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess þannig að það verði lagt til grundvallar leyfilegu magni af frjóum eldislaxi í sjókvíum á hverjum tíma.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Fiskifréttir.