Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. febrúar 2018

Gagnrýna nýtt fiskeldisfrumvarp

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi lýsa efasemdum um nýtt frumvarp til laga um fiskeldi. Samtökin gagnrýna áform um að afnema starfsleyfisskyldu fiskeldisfyrirtækja og taka þar með undir sjónarmið Umhverfisstofnunar.
 

Samkvæmt drögum að frumvarpinu þurfa fiskeldisfyrirtæki aðeins að skrá sig hjá Umhverfisstofnun, en ekki sækja um starfsleyfi eins og nú er gert. Þá verður í höndum Matvælastofnunar að veita fyrirtækjunum rekstrarleyfi. Umhverfisstofnun hefur varað við því að afnema starfsleyfisskyldu, án þess að áhættumeta fiskeldi. Ef starfsemin verði einungis skráningarskyld sé hætt við að ítarlegt mat á umhverfisáhrifum farist fyrir. 

 

Hefðu viljað úttekt á nýlegum breytingum

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga höfðu eftirlit með fiskeldi til ársins 2015 en þá tóku Umhverfisstofnun og Matvælastofnun með eftirlitinu. Í umsögn Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða um frumvarpið segir að eðlilegt hefði verið að gera úttekt á því hvernig þessi breyting hafi gengið áður en nýtt frumvarp um starfsemina yrði lagt fram. 

 

Eftirlitskostnaður nífaldast

Samtökin telja að ekki sé tekið nægilegt tillit til smærri fyrirtækja í frumvarpinu. Þær breytingar sem hafi verið gerðar á starfsumhverfi þeirra árið 2014 hafi aukið eftirlitskostnað verulega. Dæmi séu um að kostnaður fyrirtækja hafi nífaldast þegar eftirlitið færðist frá heilbrigðisnefndum til Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar. 

 

Skráningarskylda ætluð minniháttar starfsemi

Samtökin gagnrýna einnig áform um að afnema starfsleyfi til fiskeldis. „Umrædd skráning í stað formlegs starfsleyfis fyrirtækja er nýbreytni sem kom inn með breytingum á lögum nr. 7/1998 á árinu 2017 og var fyrst og fremst hugsað til hagræðis fyrir minniháttar starfsemi á borð við snyrti- og hárgreiðslustofur, en alls ekki fyrir umfangsmikla starfsemi,“ segir í umsögninni.

 

Þá telja samtökin að boðað ferli við útgáfu rekstrarleyfa sé ekki nægilega fastmótað og óvíst hvort kærur eigi að berast til Umhverfisráðuneytisins eða Atvinnuvegaráðuneytisins. „Það gilti einu hvor leiðin væri valin - leiðin yrði stjórnsýsluleg ófæra,“ segir í umsögninni.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is