Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. febrúar 2018

Fjölmennur laxeldisfundur á Fáskrúðsfirði

Fjölmenni var á íbúafundi á Fáskrúðsfirði í kvöld þar sem áform um allt að 15 þúsund tonna laxeldi í firðinum voru til umræðu.
 

Það voru íbúasamtök Fáskrúðsfjarðar sem stóðu fyrir fundinum en þar lýstu fulltrúar Laxa fiskeldis og Fiskeldis Austfjarða því yfir að eldið muni ekki trufla siglingaleiðir líkt og haldið hefur verið fram. Þá myndu eldiskvíar ekki sjást frá þéttbýlinu. Sjórinn í firðinum væri aðeins 10 daga að endurnýja sig og næringarefni hverfi á þremur mánuðum.

 

 

Fulltrúi íbúasamtaka gagnrýndi hinsvegar óljósar tölur um mengun og að hugur íbúa til fiskeldis hafi ekki verið kannaður. „Atvinnuástand á Fáskrúðsfirði er mjög gott og við sjáum ekki þörf fyrir svona mikla innspýtingu í atvinnulífið hérna. Það er eiginlega ofþensla nú þegar. Sjónmengun verður verulega mikil þrátt fyrir að laxeldisfyrirtækin segi að hún verði óveruleg. Ég eftirlæt bara áhorfendum að hugsa til þess hvernig væri að horfa á hátt í hundrað fljótandi fótboltavelli upplýsta hér úti í firði. Það er veruleg breyting á ásýnd fjarðarins,“ segir Reynir Kjartansson, fráfarandi formaður íbúasamtaka Fáskrúðsfjarðar og útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar.

 

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, sagði að leyfi fyrir 15 þúsund tonna eldi myndi kosta 22 milljarða í Noregi. 

 

Fulltrúi Laxa fiskeldis benti á að samkvæmt spám myndi mannkyninu fjölga upp í 9,7 milljarða árið 2050 og að auka þurfi matvælaframleiðslu. Fiskeldi losaði mun minna af koltvísýringi á hvert framleitt kíló en framleiðsla á landdýrum. Fiskarnir eyði ekki orku í að standa eða framleiða bein til að bera uppi eigin þunga. Fulltrúi Fiskeldis Austfjarða fullyrti að á Austjörðum mætti framleiða 70 þúsund tonn af laxi sem gæfu útflutningstekjur upp á 50 milljarða. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is