Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. febrúar 2018

Skaðleg áhrif laxalúsa á laxfiska

Nýlega var birt rannsókn sem byggir á heildrænni samantekt þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum laxalúsa á villta stofna laxfiska. Rannsókn stýrðu Eva B. Thorstad og Bengt Finstad

Niðurstaðan er sú að áhrif laxlúsa frá laxeldisstöðvum á villta laxfiskastofna og sjávarspendýr í Atlantshafinu geta verið mjög alvarleg. Áhrif laxalúsa geta leitt til minni fjölda þeirra laxfiska sem skila sér, eftir mislanga sjávardvöl, upp í vatnakerfi til hrygningar. Aukin afföll leiðir óhjákvæmilega til þess að hrygningarstofn minnkar og jafnvel fari undir sjálfbærnimörk.

Kvíaeldi á laxi.  Skjáskot ©Eva B. Thorstad og Bengt Finstad

Áhrif laxalúsa á Atlandshafslax og sjógöngustofna laxfiska hafa mikið verið rannsökuð samanborið við aðrar rannsóknir sem hafa verið gerðar á mögulegum áhrifum  nýtingu náttúrulegra auðlinda.

 

Laxlús er sníkjudýr sem heldur sig utanvert á laxi og sjógöngustofnum laxfiska og nærist á slímhúð, roði og vöðvum fiska. Afföll vegna laxalúsa verða einna mest hjá sjógönguseiðum  sem ganga úr ferskvatnskerfum til sjávar og fá á sig ákveðin fjölda laxalúsa. Ef fjöldi laxalúsa er 11 eða fleiri á sjógönguseiðum laxfiska þá mun það leiða til dauða en jafnframt getur sjóbirtingur sem fær á sig mikið magn laxalúsa drepist. Afföll verða þegar laxalús hefur náð að rjúfa slímhúð, valda sárum á roði og skemmdum á uggum en slíkt getur valdið röskun á seltu- vökvabúskap fiska, opnar leið fyrir aðrar sýkingar og veldur minni mótstöðu gegn sjúkdómum. Jafnframt geta áhrifin haft neikvæð áhrif á sundgetu, skert getu til fæðunáms, haft neikvæð áhrif á vöxt og breytt atferli fiska.

 

Laxalús er að finna í náttúrunni og velþekkt að lax sem skilar sér upp í vatnakerfin er oft með laxalús utan á sér í litlum mæli en laxeldi í eldiskvíum í sjó eykur verulega magn og útbreiðslu laxalúsa sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

 

Rannsóknir sem gerðar voru árin 2010 – 2014 benda til þess að á hverju ári drepist vegna laxalúsa  50.000 villtir laxar sem annars hefðu skilað sér upp í norskar ár. Þessi fjöldi samsvarar 10% af öllum norskum villtum laxi.

 

Laxlús frá laxeldi eru skilgreind sem önnur af tveimur mestu ógnunum er steðja að villtum laxi í Noregi.

 

 

Hér er hægt að nálgast viðkomandi skýrslu og lesa nánar.

 

Hér er hægt að lesa nánar um laxalús