Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
1. febrúar 2018

Óvíst að „hæstbjóðandi“ fengi eldisleyfin

Fiskeldissvæðum verður í framtíðinni úthlutað til þess fyrirtækis sem leggur fram álitlegustu umsóknina ef frumvarp að lagabreytingum sem snerta fiskeldi verður samþykkt óbreytt. Það yrði á valdi ráðherra að ákveða hvort rukkað yrði fyrir leyfin og hvort sá sem byði hæstu greiðsluna yrði ofan á eða hvort horft yrði til annarra þátta. Sumar fyrirliggjandi umsóknir á bæði Vestfjörðum og Austurlandi þyrftu ekki að fara eftir nýju kerfi en það yrði notað í Eyjafirði ef kemur til úthlutunar þar.

 

„Fyrstur kemur fyrstur fær“ afnumið

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsti í gær á vef sínum til umsagnar drög að frumvarpi sem ætlað er að bregðast við fyrirhugaðri aukningu í fiskeldi en gagnrýnt hefur verið að lagaramma hafi skort um eldið og að „fyrstur kemur fyrstur fær“ lögmálið kunni ekki góðri lukku að stýra.  Ein stærsta breytingin felst í því að Hafrannsóknarstofnun skal skipta fjörðum og hafsvæðum í eldissvæði á grundvelli burðarþols, áhættumats erfðablöndunar og hagkvæmrar nýtingar en skal leita umsagna meðal annars hjá aðliggjandi sveitarfélögum og jafnvel veiðiréttahöfum. Ráðherra ákveður svo hvenær eldisleyfum er úthlutað en við úthlutun skal velja hagstæðasta tilboð.

 

„Peningalegar greiðslur“ ekki endilega aðalatriðið

Frumvarpið felur ekki endilega í sér að rukkað verði fyrir leyfin heldur verður ákvörðun um slíkt á valdi ráðherra. Í greinargerð með frumvarpinu segir. „Þannig þarf hagstæðasta tilboð ekki að fela í sér fjárhagslega greiðslu tilboðsgjafa en ákvæðið útilokar ekki slíkar peningalegar greiðslur tilboðsgjafa. Gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði skilmála úthlutunar og hvað teljist hagstæðasta tilboð með reglugerð, þar sem þessi atriði geta breyst milli úthlutana og eftir því sem tíminn líður. Að öðru leyti er gert ráð fyrir frekari útfærslu ákvæðisins með reglugerð ráðherra,“ segir í greinargerðinni. Í frumvarpinu er hins vegar tekið fram að horft skuli til fjárhagslegs styrks, samfélagslegrar ábyrgðar og mælikvarða um hvernig tilboðsgjafi hafi stundað sinn rekstur meðal annars út frá umhverfissjónarmiðum. Eftir að umsækjandi hefur fengið úthlutað eldissvæði þarf hann eftir sem áður að sækja um leyfi til Matvælastofnunar.

 

Auðlindagjald í fiskeldi undirbúið

Fram kemur í frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að þar sé unnið að frumvarpi til laga um auðlindagjald í fiskeldi. Þar sé lagt til að þeir sem stunda fiskeldi í sjókvíum greiði auðlindagjald. Gengið yrði út frá því að stærstur hluti gjaldsins renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis.

 

Umsóknir í burðarþolsmetnum fjörðum smjúga fram hjá

Þessi breyting nær þó ekki til allra fiskeldisáforma. Umsóknir um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar á svæðum sem ekki eru burðarþolsmetin myndu falla niður en rekstrarleyfi á slíkum svæðum halda gildi sínu. Fyrirtæki, sem hafa tilkynnt Skipulagsstofnun um áform um fiskeldi á tilteknum hafsvæðum, sem eftir er að meta til burðarþols, myndu því ekki geta tryggt sér tiltekið svæði heldur verður þeim úthlutað á grundvelli auglýsingar. Gilt rekstrarleyfi á hafsvæði, sem ekki yrði búið að meta til burðarþols við gildistöku laga, myndi hins vegar halda gildi sínu.

 

Hins vegar gilda eldri reglur um framlagðar umsóknir um rekstrarleyfi til MAST á fjörðum þar sem burðarþol hefur verið metið. Þetta myndi þýða að breytingin myndi ekki ná yfir sum fiskeldisáform á bæði Austfjörðum og Vestfjörðum. Fyrir austan hefur burðarþol verið metið í Berufirði 10 þúsund tonn, í Fáskrúðsfirði 15 þúsund tonn, í Reyðarfirði 20 þúsund tonn og í Stöðvarfirði 7 þúsund tonn. Burðarþol hefur ekki verið metið í Norðfjarðarflóa, Norðfirði, Viðfirði, Hellisfirði, Mjóafirði og Seyðisfirði.

 

Fyrir vestan hefur burðarþol verið metið í Dýrafirði 10 þúsund tonn, í Arnarfirði 20 þúsund tonn, í Patreksfirði, Tálknafirði og Patreksfjarðarflóa samtals 20 þúsund tonn og í Ísafjarðardjúpi 30 þúsund tonn.

 

Eyjafjörður hefur ekki verið burðarþolsmetinn og því myndu fiskeldisáform þar falla undir nýtt umsóknarkerfi.

 

Áhættumat lögfest

Burðarþol fjarða verður endurskoðað með tilliti til þess sem vöktun á áhrifum fiskeldisins leiðir í ljós. Víða takmarkast eldið enn frekar vegna áhættumats Hafrannsóknarstofnunar vegna hættu á erfðablöndun við villtan lax. Í frumvarpsdrögunum er lagt til að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest þannig að HAFRÓ verði skylt að gefa út áhættumat. Þar komi fram hve mikið af fjóum laxi megi ala í sjókvíum hverju sinni. Meta skuli hvenær erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna verði það mikil að stofngerð villta stofnsins stafi hætta af. Yrði þetta samþykkt óbreytt þyrfti Matvælastofnun að tryggja að leyfilegur lífmassi frjórra laxa samkvæmt rekstrarleyfi sé í samræmi við áhættumatið.

 

Ætlað að skapa aukna sátt

Í greinargerð með frumvarpinu segir að núverandi lagaumhverfi bjóði upp á kapphlaup umsækjenda um eldissvæði. Þetta kapphlaup geti leitt af sér ágreining milli umsækjenda um afmörkun eldissvæða, ósamræmi við aðra nýtingu í viðkomandi fjörðum og þá sé ekki tryggt að heildarnýting svæða sé sem hagkvæmust. Ef frumvarpið verði að lögum megi gera ráð fyrir „að álitamálum vegna leyfisveitinga og staðsetningar sjókvía eigi eftir að fækka með lögleiðingu nýs leyfisveitingakerfis, þar sem nýtt kerfi gerir ráð fyrir að búið sé að áætla staðsetningu og burðarþol hvers eldissvæðis þegar úthlutun fer fram og leyfishafi gerir tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og sækir í framhaldinu um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir auknu samráði stofnana og fagaðila snemma í leyfisveitingarferlinu sem auka mun samræmi og heildaryfirsýn við ákvörðunartöku í ferlinu öllu,“ segir í greinargerðinni.

 

Í frumvarpinu er að finna ýmsar aðrar breytingar sem meðal annars lúta að eftirliti og annarri umgjörð fiskeldis. Lesa má frumvarpið í heild sinni á vef ráðuneytisins.  

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is