Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
31. janúar 2018

Óttast óreiðu og árekstra á fjörðum

Fjarðabyggð hyggst gera nýtingaráætlun til að fyrirbyggja að fiskeldi trufli aðra nýtingu í fjörðum og til að aukin sátt náist um eldið. Áætlunin mun þó ekki hafa neitt lögformlegt gildi.

 

Laxar Fiskeldi setti fyrstu laxaseiðin í Reyðarfjörð síðasta sumar en vill stærra eldisleyfi og skilaði nýverið matsáætlun um 10 þúsund tonna eldi í firðinum. Sveitarfélagið Fjarðabyggð þarf að gefa umsögn um þessi eldisáform og fleiri í sveitarfélaginu en vandamálið er að nýting fjarðanna hefur ekki verið skipulögð. „Það liggur fyrir að það er ekki til löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða og þá sérstaklega fjarða sem við höfum haft áhyggjur af mjög lengi og bent á að verði að vera á forræði sveitarfélagsins,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð.

Fiskeldi í Berufirði  Skjáskot ©ruv.is
 

Á meðan beðið er eftir nýjum lögum ætlar Fjarðabyggð að gera áætlun um nýtingu fjarðanna. „Það er mikilvægt að það liggi fyrir nýtingaráætlun þar sem fram kemur meðal annars hvar siglingaleiðir inn fjörðinn liggja hvar efnistökusvæðin eru hvar fiskeldi á að vera hvar sé aðstaða fyrir önnur fyrirtæki og samlegð við önnur skipulagsmál í landi. Það er bara mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir í einn nýtingaráætlun. Og það er ekkert í raun og veru form á þessu í dag því löggjöfin er bara ekki tilbúin,“ segir Páll Björgvin.

 

Aðspurður um hvort nýtingaráætlunin muni hafa nokkurt gildi svarar hann: „Nei hún hefur kannski ekki lögformlegt gildi en er mjög sterkt og gott innlegg í umræðuna um þessi mál. Og algjörlega nauðsynlegt að vinna slíka áætlun í jafn viðamiklum málum eins og þetta er.“

 

Hafa kallað lengi eftir löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða

Skiptar skoðanir eru um fyrirhugað eldi í Fáskrúðsfirði. Íbúar hafa sent inn athugasemdir og lagst gegn eldi á vissum stöðum meðal annars vegna sjónmengunar. Fjarðabyggð hefur tekið undir þessar áhyggjur. Aðspurður um hvort nýtingaráætlunin sé ekki seint á ferðinni, svarar hann. „Það má segja það að þetta sé svolítið seint gert en við eru búin að kalla eftir löggjöfinni mjög lengi og eiga mjög langar viðræður um það. Við reynum bara að gera okkar besta úr stöðunni í dag og koma þessum nýtingaráætlunum á. Það er ekki hægt að horfa lengur upp á það að það er ekki löggjöf um skipulag á fjörðum og þess vegna verðum við að grípa til þessara ráða núna. Ganga í þetta verkefni og ætlum að ljúka því hratt og vel í samstarfi við alla aðila. Það er ekki allt að gerst á morgun í fiskeldismálum þetta gerist á einhverjum tíma. Þannig að það er bara mikilvægt að vinna hratt núna og klára þessa nýtingaráætlun,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is en þar er einnig hægt að horfa á myndskeið með þessari frétt.