Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
30. desember 2017

Leyfi fyrir auknu fiskeldi á Vestfjörðum

Umhverfisstofnun hefur veitt Fjarðalaxi og Arctic Sea Farm starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Fjarðalaxi er heimilt að framleiða allt að 10.700 tonnum og Arctic Sea Farm 6.800 tonnum.

Fjarðalax er dótturfyrirtæki Arnar­lax en líkt og Fréttablaðið greindi frá í september hafði Arnarlax hætt fiskeldisstarfsemi sinni í Patreksfirði. Sýnatökur Náttúrustofu Vestfjarða síðastliðinn vetur bentu til mikillar uppsöfnunar lífræns úrgangs sem bærist með straumum inn fjörðinn.  

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að til standi að hefja aftur starfsemi í Patreksfirði. Kristian Matthíasson, forstjóri Arnarlax, sagði aftur á móti í september að það væri á hreinu að kvíarnar yrðu færðar og Arnarlax myndi ekki setja út fisk á þessum stað. Auk þess sagði hann að staðsetningin uppfyllti ekki skilyrði sem fyrirtækið setji umhverfi sínu. Leyfin nú eru gefin út fyrir sömu staðsetningar í Patreksfirði og kvíar Arnarlax voru á.

„Í ljósi frétta af mengun frá því sjókvíaeldi sem hefur verið í Patreksfirði vekur útgáfa á nýjum leyfum fyrir stórauknu eldi óneitanlega furðu,“ segur Jón Kaldal, hjá Ice­landic Wildlife Fund. „Samkvæmt þeim fréttum leiddi úttekt Náttúrustofu Vestfjarða í ljós að mengun frá laxeldiskvíunum hlóðst ekki aðeins upp í nágrenni eldiskvíanna og eyddi lífi botndýra þar, heldur hefur mengunina líka rekið inn fjörðinn og safnast þar saman. Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni.“

 

Þessa frétt er að finna í Fréttablaðinu og á vefnum visir.is