Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
2. desember 2017

Vilja ekki baða hrognin úr skítugum eldissjó

Skipulagsstofnun fékk 43 athugasemdir við frummatsskýrslu um stóraukið laxeldi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Loðnuvinnslan í Fáskrúðsfirði óttast að úrgangur frá eldinu mengi sjó sem notaður er í hrognavinnslu og ferðaþjónusta í Berufirði kærir sig ekki um eldiskvíar á vissum svæðum vegna sjónmengunar.

 

Stóraukin áform

Fiskeldi Austfjarða hefur sótt um stærri eldisleyfi í Berufirði og Fáskrúðsfirði, vill auka framleiðslu úr 11 þúsund tonnum í 21 þúsund tonn. Fyrirtækið er í dag aðeins með starfsemi í Berufirði en nýtir ekki eldisleyfi í Fáskrúðsfirði. Fjölmargir hafa áhyggjur af áhrifum aukins fiskeldis á umhverfið en á hinn bóginn er bent á að eldið skapi atvinnu og verðmæti. Fiskeldi Austfjarða sendi nýverið inn frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar og gafst öðrum kostur á að gera athugasemdir. Fiskeldið þarf svo að bregðast við athugasemdum í endanlegri skýrslu.

 

Ekki minnst á hættu sem steðjar að hrognavinnslu

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er ein þeirra 43 sem sendu inn athugasemd. Fyrirtækið bendir á að við vinnslu á loðnuhrognum nýti það mikið af djúpsjó eða um 500 rúmmetra á klukkustund. Sjórinn sé tekinn á 30-50 metra dýpi og þar sem hann sé í snertingu við hrognin þurfi hann að vera mjög hreinn. Straummælingar sýni stöðuga hringrás í firðinum og ljóst séð sjávarstraumar gætu borið mengun frá fyrirhuguðum eldissvæðum að sjóinntaki Loðnuvinnslunnar. Í frummatskýrslunni sé hvergi minnst á þessa hættu.

 

Eldiskvíar spilli ásýnd og upplifun

Eigendur ferðaþjónustu hafa líka miklar áhyggjur af fjölgun eldisvæða í fjörðunum og sjónmengun frá eldiskvíum á hafi úti. Í Berufirði er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta bæði í Berunesi og á Karlsstöðum. Ferðaþjónustubændur þar gagnrýna að engin sýnileikagreining hafi farið fram og afstöðumyndir séu af skornum skammti í frummatsskýrslunni. Kvíar á eldissvæðum sem kennd séu við Hamraborg myndu valda sjónmengun en vinsæl gönguleið liggi með sjónum að Karlsstaðavita og þá sé áningarstaður við Blábjörg.

 

Saltframleiðsla í voða og mávager yfir æðarvarpi

Einnig sé hætta á að eldið auki saurmengun í fjörunni en það gæti gert út um salframleiðslu og þá gæti friðað æðarvarp verið í hættu ef mávi fjölgar við kvíarnar. Athugasemdir eru gerðar við að ekki hafi verið gerð sérstök athugun á fuglalífi til að meta áhrif á það heldur aðeins stuðst við fyrirliggjandi gögn.

 

Náttúruverndarsamtök og veiðifélög sendu inn sameiginlegar athugasemdir þar sem þess er krafist að Skipulagsstofnun hafni frummatskýrslunni vegna annmarka og rangfærslna og segja framkvæmdina ólöglega. Veiðifélögin óttast meðal annars erfðablöndun á norskum eldislaxi við villta laxastofna. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is