Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
19. nóvember 2017

Eldisheimildir gefa vel í aðra hönd

Landssamband veiðifélaga hefur gert fjölmargar athugasemdir við fyrirætlanir Fiskeldis Austurlands um allt að 21.000 tonna eldisframleiðslu í Berufirði og Fáskrúðsfirði.  Segist fyrirtækið ætla að nota ófrjóan lax að hluta í eldið.


Landssambandið telur að fyrirhugað eldi ógni laxastofnum á öllu Austurlandi enda sýndi sig þegar eldisfiskur slapp í Norðfirði 2003 þá veiddist hann m.a. í ám í Vopnafirði. Umfjöllun um þá hættu sem stafar af laxalús er fátæklegt. Því er slegið fram að fyrir hendi séu náttúrulegar varnir gegn laxalús sem komi í veg fyrir vandamál vegna hennar. Ljóst er af fenginni reynslu af laxeldi í Arnarfirði að  lúsarvandamál koma upp þegar eldið er orðið af því umfangi sem þarna er fyrirhugað með alvarlegum afleiðingum fyrir villta stofna laxfiska.

 

Þá eru engar upplýsingar gefnar um þann ófrjóa lax sem fyrirhugað er að ala. Eini valkosturinn sem nú er völ á er þrílitna lax og samkvæmt reynslu Norðmanna liggur fyrir að lax sem hefur verið meðhöndlaður og gerður ófrjór með þeim hætti vex ekki við hitastig sjávar líkt og er fyrir Austurlandi. Fyrir slíku eldi eru því hvorki fjárhagslegur grundvöllur eða aðrar færar forsendur. Því verður aðeins ályktað að aðrar ástæður liggi að baki mjög óljósum og óútskýrðum áformum um eldi geldlaxa í sjókvíum í Berufirði og Fáskrúðsfirði.

Fyrirtæki framkvæmdaraðila, Fiskeldi Austurlands hefur verið í fréttum vegna samninga sem norskir aðilar hafa gert sín á milli um sölu 45.2% hlutafjár í félaginu. Í fréttamiðlinum Vísi kemur fram að endanlegt kaupverð muni ráðast af þeim leyfum sem Fiskeldi Austfjarða fær til laxaframleiðslu. Í fréttinni kemur fram að sú fjárhæð sem greidd er kunni að u.þ.b. fjórfaldast gangi söfnun eldisheimilda að óskum. Þetta kann að vera ástæða þess að nú er þess freistað að afla leyfa undir því fölsku flaggi, að hefja skuli eldi geldstofna laxa í sjó. Hér eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, eða allt að 3 milljörðum króna, ef vel tekst til við öflun leyfanna. Engar sérstakar reglur gilda um þessi efni aðrar en þær að fyrstur kemur- fyrstur fær.
Fyrir slíkar upphæðir víkja hagsmunir umhverfisins.