Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
16. nóvember 2017

Telja lax ekki hafa sloppið um gat á eldiskví

Rifa fannst á laxeldiskví Laxa fiskeldis í Reyðarfirði í gær. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins telur engan lax hafa sloppið út þar sem gatið var á botni kvíarinnar. Hann segir slys alltaf geta orðið en að fyrirtækið taki þessu alvarlega. 

Eldislax ©Sumarliði Óskarsson

Gatið á 30 metra dýpi

Starfsmenn Laxa fiskeldis tóku eftir rifunni, sem var um 50 sentimetrar á lengd, í myndavélum eldiskvíarinnar í gær. Í kvínni eru eins kílóa laxar sem voru settir út í sumar. Helgi G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, telur að enginn lax hafi sloppið út um gatið þar sem það var á 30 metra dýpi: „Við erum aldrei vissir um það en við teljum að það séu litlar líkur á því vegna þess að það er enginn fiskur þarna niðri, hann heldur sig ofar, nær yfirborðinu.“ Fiskurinn leitar í fóðrið nær yfirborðinu og því séu það eingöngu dauðir fiskar sem lenda á botninum.

 

Settu af stað viðbragðsáætlun

Helgi segir að um leið og menn urðu gatsins varir hafi viðbragðsáætlun verið sett af stað. Net sett út og kafari fenginn til að laga rifuna. Talið er að svokallaður dauðfiskaháfur, sem veiðir upp fisk sem drepst og fellur til botns, gæti hafa rekist í kvína og rifið. 

 

Eiga að vera öruggar kvíar

Helgi segir að kvíarnar séu byggðar með fylsta öryggi í huga og þær hafi komið vel út, atvik sem þessi séu ekki algeng.  „Það geta alltaf skeð slys. Það þarf að fara ofan í hvert mál ef eitthvað svona skeður þá þurfum við sjá hvað það er og reyna að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.“ Helgi segir að bréf hafi verið skrifað til Fiskistofu seinni partinn í dag enda beri að tilkynna um atvik sem þetta. „Við erum með okkar gæðakerfi, gæðaeftirlit og viðbragðsáætlun og við tökum þetta alvarlega. - Og við tökum fulla ábyrgð á öllu þessu.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is