Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. nóvember 2017

Segir nýrnaveiki ekki ógna eldi í Reyðarfirði

Framleiðslustjóri hjá Löxum fiskeldi segir að nýrnaveiki sem kom upp í tveimur kvíum fyrirtækisins í Reyðarfirði sé bagaleg en ógni ekki afkomu fyrirtækisins. Hann reiknar með nýrnaveiki geri út af við um 10% af seiðum í tveimur smituðu kvíum í Reyðarfirði. Veikin sé landlæg í villtum íslenskum laxi og líklega sé um 15 % af villtum fiski smitaður.
Eldislax ©Sumarliði Óskarsson

 

Nýrnaveiki kom upp í haust bæði hjá Íslandsbleikju í Öxarfirði og hjá Löxum fiskeldi í Reyðarfirði. Hjá Íslandsbleikju er fiskurinn alinn í kerum á landi og hefur sýktum fiski þegar verið slátrað. Í Reyðarfirði er hann hins vegar í sjókvíum og verður alin áfram í sláturstærð þrátt fyrir sýkinguna. Nýrnaveikin er ólæknandi, leggst eingöngu á innri líffæri en ekki holdið og því er óhætt að neyta fisks sem hefur veikst.
 

Gunnar Steinn Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Löxum fiskeldi í Reyðarfirði segir að um 10% af seiðunum drepist vegna sýkingarinnar. „Í fyrst lagi þá er þetta engin katastrófa. Þetta er lítill dauði, hann gerist núna og þetta er algeng sýking í villtum laxi á Íslandi. Það er engin hætta á ferðinni; það er ekkert að kvikna í. Það sem við þurfum að gera er að rækta fiskinn áfram þangað til við tökum hann í slátrun,“ segir Gunnar.

 

Hann segir óljóst hvaða sýkingin kemur og vonar að hún heyri sögunni til eftir að fiskinum hefur verið slátrað en þá eru kvíarnar sótthreinsaðar áður en nýjum seiðum er sleppt. „Fyrst er nótin tekin upp úr og hún send í hreinsun, þvott og viðgerð. Kvíarnar eru teknar og þeim lyft upp með krana og smúlað með háþrýstingi. Síðan er sett á þetta efni og þetta hreinsað með háþrýstidælu með hita; allur botninn, allt undir kvínni, líka botnhringurinn sem heldur kvínni úti. Þetta er gert hvort sem við höfum haft sjúkdóm eða ekki. Svona gera menn þetta alltaf,“ segir Gunnar Steinn Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Löxum fiskeldi í Reyðarfirði.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is