Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. september 2017

Berjast við lús en stefna að fjórföldun eldis

Baráttan við laxalús er aðal áhyggjuefni í sjókvíaeldi í Noregi. Lús hefur aukist á nokkrum stöðum. Ef tekst að vinna bug á þessum vágesti eru áætlanir um að framleiðsla eldisfisks geti fari í 5 til 6 milljónir tonna á ári á næstu árum.
 

Á sama tíma og við hér á Íslandi deilum um áhættumat vegna erfðablöndunar frá fiskeldi í sjó hafa Norðmenn mestar áhyggjur af laxalúsinni sem herjar á eldislaxinn og villta laxa í ám. Geir Lasse Taranger, sérfræðingur hjá norsku hafrannsóknarstofnunni segir að tekist hafi verið á um fiskeldi í Noregi í áratugi.

Eldislax      Ljósmynd: Sumarliði Óskarsson

 

„Á síðustu árum hefur sátt um fiskeldi aukist, meðal annars vegna þess að þekkingin hefur aukist og eftirlit með fiskeldinu. Árlega er gefin út áhættumatsskýrsla með upplýsingum sem stjórnvöld geta stuðst við,“ segir Geir Lasse.
 

Vandamál með lúsina

Geir segir að vissulega séu skiptar skoðanir um hver sé mesta hættan sem stafi frá fiskeldi. Ýmsar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að lax sleppi úr kvíum og unnið sé eftir ákveðnum reglum. Hins vegar sé það laxalúsin sem sé að gera mönnum lífið leitt.

 

„Vandamálið með lúsina hefur aukist síðustu árin, að minnsta kosti á ákveðnum svæðum. Þess vegna beinist athygli okkar fyrst og fremst að laxalúsinni og hvernig hægt er að finna lausnir,“ segir Geir Lasse. Hann segir að lúsin valdi fiskeldisfyrirtækjunum miklum efnahagslegum búsifjum vegna þess að þau verði að uppfylla strangar reglur sem stjórnvöld hafi sett þeim.

 

„Þrátt fyrir aðgerðir fyrirtækjanna er eftirlitið með lúsinni ekki nægilega gott að mati Hafrannsóknarstofnunar. Ástandið er mismunandi eftir svæðum og á milli ára,“ segir Geir Lasse. 

 

Seldu lax fyrir 860 milljarða

Umfang fiskeldis er nokkuð mikið í Noregi. Fiskeldisfyrirtækin eru 600 að tölu og í fyrra voru framleiddar rúmlega ein komma þrjár milljónir tonna. Mest af laxi eða rúmar 1,2 milljónir tonna. Í fyrra jókst söluverðmætið laxins um 35% þó að framleiðslan hefði dregist örlítið saman. Seldur var lax fyrir um 860 milljarða íslenskra króna á síðasta ári.

 

Geir Lasse segir að ýmsar aðferðir hafi verið þróaðar til að eyða lúsinni í kvíunum. Unnið sé með ýmsar aðferðir. Notað sé ferskt vatn og heitara vatn til að vinna bug á lúsinni. Einnig sé vélræn aðferð nýtt til að aflúsa eldislaxinn. Þá sé mikið um að bæði hrognkelsi og varafiskar séu notaðir til að éta lúsina í kvíunum. Í ljós hafi komið að lyfjanotkun til að eyða lúsinni hafi ekki borið tilætlaðan árangur.

 

„Svo er það auðvitað þannig að sumir standa sig mjög vel en aðrir missa tökin á lúsinni sem veldur miklum skaða á eldislaxinum og eykur hættuna á að lúsin smitist yfir á villta laxinn, segir Geir Lasse.

 

Mun færri laxar sleppa

En hafa Norðmenn litlar áhyggjur af erfðablönduninni við villta laxinn? Geir Lasse segir að fylgst sé árlega með yfir 160 ám til að sjá hve mikið af eldislaxi fari í árnar. Mun minna sé nú af eldislaxi í ám en áður.

 

„Í Noregi er reglan sú að ef hlutfallið fer yfir 10% í ám verður viðkomandi eldisstöð að sjá um að hreinsa ána. Ef hlutfallið er á milli 4 og 10% þá verður að meta til hvaða aðgerða er gripið,“ segir Geir Lasse. Jafnframt hafi verið samþykkt fjármögnunarleið til að koma í veg fyrir að laxar sleppi úr kvíum. Ef stórslys verða í kvíum og mikið af laxi sleppur geta yfirvöld fyrirskipað aðgerðir til að fjarlægja fiskinn.

 

„Í heild er þetta gott kerfi að mínu mati, en ástandið var mun verra áður, segir Geir.  Í nokkrum fjörðum er fiskeldi bannað og um 50 ár eru sérstaklega verndaðar. Vandinn er reyndar sá að lax sem sleppur getur farið um langan veg. Hins vegar eru friðuðu firðirnir og árnar lausar við lús sem borist hefur frá kvíum,“ segir Geir.

 

Áætlanir um 5-6 milljónir tonn

En Norðmenn eru ekki að draga saman seglin í sjókvíaeldi. Framleiðslan á laxi hefur frá 2011 staðið nokkurn veginn í stað, um 1,3 milljónir tonna. Geir segir að það sé vegna þess að óvissa hafi ríkt um sjálfbærnina í greininni. Þess vegna hafi verið beðið með að láta eldið vaxa nema í nokkrum fáum tilfellum. Nú hafi verið tekið upp nýtt kerfi sem gangi undir nafninu Umferðarljósið. Laxeldisfyrirtækin fá grænt, gult eða rautt ljós á stækkun. Þau fyrirtæki sem fá grænt ljós fái leyfi til að stækka um 6% á ári. Ljósakerfið er endurskoðað á tveggja ára fresti. Geir segir að þó nokkur svæði hafi fengið grænt ljós. Ef fyrirtækin fá hins vegar gult eða rautt ljós verða þau að beita nýrri tækni til að eyða laxalúsinni. Jafnframt hefur verið komið á ákvæði um þróunarleyfi þar sem fyrirtæki fá heimild til að prófa nýjar leiðir, eins og til dæmis lokaðar kvíar. Og það eru horfur á að sjóeldið vaxi umtalsvert á næstu árum.

 

„Það eru til spár um að fiskeldið geti fari í 5 til 6 milljónir tonna og þá er ekki bara verið að tala um laxeldið,“ segir Geir. 

 

Hann sagði á fundi sem sjávarútvegsráðherra efndi til að fiskeldið gæti um 2050 verið komið í 6 til 7 milljónir tonna. Þetta er nokkuð fjarri því sem rætt er um hér á landi, 70 til 100 þúsund tonn á ári. Geir segir að ef takist að vinna bug á lúsinni og öðrum sjúkdómum þá sé pláss fyrir svo mikið eldi.

 

 „Vöxturinn verður að vera sjálfbær segir Geir Lasse. Nú höfum við tekið í notkun þetta nýja kerfi sem gerir okkur kleift að skipuleggja út frá sjálfbærninni á hverjum stað,“ segir Geir Lasse Taranger.

 

Hér er hægt að sjá myndskeið með frétt.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is