Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. september 2017

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 20. september. 

 

Þessa veiðivikuna bættust tíu ár í hóp þeirra sem lokið hafa veiði þetta veiðitímabilið en lokatölur munu berast úr mörgum ám til viðbótar á næstu dögum. Eystri-Rangá fór yfir 2000 laxa markið og er komin í 2030 laxa og var vikuveiðin 47 laxar.

 

Haustið hefur verið fremur milt fram til þessa og sumstaðar komið dagar þar sem hefur verið óvenju hlýtt miðað við árstíma. En úr þessu má búast við að haustlægðirnar fari að leggja leið sína til okkar. Það er víða fallegt um að litast á veiðislóð enda skartar náttúran fallegum fjölbreyttum litskrúða og ekki amalegt að stunda veiðar í jafn fallegu umhverfi. Enn er hægt að veiða víða um land en flestar náttúrulegu árnar munu vera búnar að loka um næstu mánaðarmót. Veiðar í þeim ám sem byggja á seiðasleppingum verða stundaðar vel fram í október og því ljóst að hægt er að stunda laxveiðar töluvert áfram þetta veiðitímabilið. 

Efst á listanum er Ytri-Rangá með 6526 laxa og vikuveiðin var 447 laxar. Miðfjarðará er í öðru sæti með 3627 laxa og vikuveiði var 157 laxar. Í þriðja sæti er Þverá og Kjarará og hafa alls 2060 laxar veiðst en veiði lauk 14 september og hefur veiðibók verið yfirfarin og eru þetta lokatölur.

 

Hér fyrir neðan er listi yfir efstu átta árnar þessa vikuna.

 

1. Ytri-Rangá 6079 laxar - vikuveiði 491 laxar.

 

2. Miðfjarðará 3470 laxar - vikuveiði 231 laxar.  

 

3. Þverá og Kjarará 2060 laxar - Lokatala.

  

4. Eystri-Rangá 2030 laxar - vikuveiði 47 laxar.

 

5. Norðurá 1719 laxar -  Lokatala.

 

6.  Langá 1540 laxar - vikuveiði 80 laxar.

 

7.  Blanda 1433 laxar - Lokatala. 

 

8.  Grímsá og Tunguá 1214 laxar - vikuveiði 93 laxar.

 

9.  Haffjarðará 1167 laxar - Lokatala.

 

10. Laxá á Ásum 1108 laxar - vikuveiði 51 laxar. Lokatala

 

 

Hér er hægt að skoða allan listann með tölum úr um 40 ám.

 

Veiðitölur berast stundum ekki úr öllum ám en tölur verða skráðar inn þegar þær berast.

 

Við tökum saman tölur næsta miðvikudag 27. september og eins og fyrr segir þá loka árnar ein af annari þessa dagana og má búast við nýjum lokatölum hér á angling.is um leið og þær berast. Það verður fróðlegt að sjá hverjar lokatölurnar verða og bera saman við undangengin veiðitímabil.  

 

Söfnun veiðitalna væri ekki möguleg nema fyrir liðsinni fjölda aðila sem vikulega taka saman veiðitölur. Kærar þakkir fyrir ykkar liðsinni í veiðitölusöfnun.