Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. september 2017

„Ærumeiðandi“ og „óboðleg“ ummæli bæjarstjóra

Fulltrúar Landssambands veiðifélaga og Landssambands fiskeldisstöðva, sem sátu í starfshópi sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi, fara fram á opinbera afsökunarbeiðni Ísafjarðarbæjar vegna ummæla Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, um störf starfshópsins á bæjarstjórnarfundi 24. ágúst síðastliðinn. Ummælin hafi verið ærumeiðandi og óboðlegar opinberu stjórnvaldi.

Bréfið er stílað á forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs en þar segir að í ummælum bæjarstjóra hafi falist: „Gróf og ósönn ásökun um að fulltrúi veiðiréttarhafa og fulltrúar laxeldisfyrirtækjanna hafi sýnt af sér óheillindi og óheiðarleika í störfum sínum.“ Bæjarstjóri hafi sagt nefndarmenn hafa „plottað“ og staðið í „hrossakaupum“ sem leiddu til þess að lokað var fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Bæjarstjóri hafi jafnframt haft í frammi að laxeldisfyrirtæki fulltrúa Landssambands fiskeldisstöðva nytu góðs af meintum hrossakaupum. Undir bréfið skrifa Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax – auk Óðins Sigþórssonar, fulltrúa Landssambands veiðifélaga. Upptökur af fundinum voru birtar á bb.is.

 

Í bréfi nefndarmannanna er lögð áhersla á að nefndin hafi náð samkomulagi um að leggja áhættumat Hafrannsóknastofnunar til grundvallar sem stjórntæki áður en niðurstaða þess lá fyrir. Hagsmunaaðilar hafi ekki haft áhrif á gerð áhættumatsins og niðurstöður þess.

 

Í bréfinu kemur fram að bæjarstjóra hafi verið boðið að draga ummæli sín til baka og leggja fram afsökunarbeiðni en að því hafi verið hafnað. Þá segir að verði ekki orðið við kröfum bréfritara þá áskilji þeir sér allan rétt til að fá ósönn ummæli bæjarstjóra ómerkt með öðrum úrræðum.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is