Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. september 2017

Mörg þúsund eldisbleikjur sluppu

Þúsundir eldisfiska sluppu í Hæðarlæk í Skaftárhreppi í síðustu viku þegar bilun varð í eldisstöðinni Tungulaxi. Starfsmenn Fiskistofu hafa náð um fimmþúsund eldisbleikjum úr ánni, en talið er að meira sé eftir. Hæðarlækur rennur í Tungulæk, þekkta sjóbirtingsá.

 

Það var á miðvikudag sem Fiskistofu barst tilkynning um að fiskur hafi sloppið úr eldi hjá Tungulaxi og daginn eftir fóru eftirlitsmenn þangað til að kanna umfangið. Morgunblaðið sagði fyrst frá málinu.

Bleikja (Salvelinus alpinus L.)
  

 

Búið að fanga yfir 5200 fiska úr Hæðarlæk

Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, segir ástandið hafa reynst mun alvarlegra en tilkynnt hafði verið og þeir hafi þegar hafist handa við að ná fiskinum úr ánni. „Við fengum tilkynningu um að þarna væru um það bil 200 fiskar sloppnir, en staðan er í dag þannig að við erum búnir að fanga þarna yfir 5200 fiska. Okkar aðgerðir fólust í því að draga fyrir með nót og við lögðum líka net. Þannig að það er búið í marga daga að reyna að grisja þetta og taka sem mest af þessu með þessum hætti.“

 

Framhaldið í höndum Matvælastofnunar

Og enn hafi ekki tekist að ná öllu, því ennþá sjáist í eldisfisk í ánni. Starfsmenn Fiskistofu séu því enn á staðnum. „ Það er ekki búið að hreinsa allt, en það er búið að ná mjög miklu,“ segir Eyþór. „Framhaldið er í rauninni í höndum Matvælastofnunar með eftirmála, hverjir þeir kunna að vera.“

 

Alltaf hætta á kynblöndun þegar svona gerist

Hæðarlækur fellur í Tungulæk sem er ein af helstu sjóbirtingsám landsins. Guðni Guðbergsson, sérfærðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir of snemmt að segja til um hvort þetta mun hafa áhrif á náttúrulega bleikjustofna í þessum ám. Alltaf sé þó hætta á kynblöndun sem geti haft varanleg áhrif á náttúrulega bleikjustofna. Hann þekki ekki til stofna eldisbleikju hjá Tungulaxi en þó þeir geti verið náttúrulegir að uppruna gætu hafa átt sér stað kynbætur í stöðinni og stofnarnir því breyst mikið.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is