Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. september 2017

Fróðleikur um Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha)

Í sumar hefur óvenju mikið verið um hnúðlax í íslenskum ám í sumar, tilkynnt hafi verið um allt að sjötíu slíka fiska um allt land. Hafa fiskarnir veiðst víðsvegar um landið.

 

Kynþroska hnúðlaxahængar eru auðþekktir á hnúðnum á bakinu, sem líkist nokkurs konar kryppu. Hrygnurnar geta hins vegar verið erfiðari að þekkja, en á þær vantar hnúðinn og geta þær líkst Atlantshafslaxi við fyrstu sýn. Sé betur að gáð er hreistur hnúðlaxa þó áberandi smátt, í gómi munnsins má finna svarta rönd og hringlaga dökka bletti er að finna á sporðblöðku.

Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha) ©Kolbrún Sveinsdóttir

Hnúðlax sem einnig er nefndur bleiklax tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í norðanverðu Kyrrahafi, með hrygningarstofna austan þess í Bandaríkjunum og Kanada og vestan þess í Rússlandi, Japan og Kóreu. Smærri hrygningarstofnar finnast einnig norðan Beringssunds, allt austan frá Mackenziefljóti í Kanada og vestur að ánni Lenu í Síberíu. Hnúðlax er mest veidda laxategundin í N-Kyrrahafi, en hann er eingöngu veiddur í sjó og illa hæfur til manneldis þegar kynþroska er náð og því lítt eftirsóttur af veiðimönnum í ferskvatni.

 

Hnúðlax er fremur smávaxinn, við kynþroska er þyngdin oft á bilinu 0,5 – 2,5 kg og lengdin 40 – 60 cm. Stærstu hængar geta þó orðið allt að 6 kg. Tegundin hefur stysta lífsferil kyrrahafslaxa og er hann ávallt 2 ár frá hrogni til kynþroska lax. Hrygningarslóðin er gjarna neðarlega í ánum. Hrygning fer fram að hausti og klekjast hrognin vorið eftir. Seiði fara strax í átt til sjávar eftir klakið og dvelja þau fyrsta mánuðinn í árósnum. Sjávardvölin tekur þá við og árinu seinna, að sumri eða hausti, birtast kynþroska laxar á hrygningarslóð. Eins og aðrar laxategundir eru hnúðlaxar ratvísir og leita jafnan í sína heimaá. Hnúðlaxar drepast allir að lokinni hrygningu.

 

Hnúðlax veiddist fyrst á Íslandi svo vitað sé árið 1960. Síðan þá hafa þeir veiðst af og til og eru taldir flækingar. Ástæðuna fyrir því að hnúðlaxar koma fram í íslenskum ám má rekja til rússneskra tilrauna með útsetningu frjóvgaðra hrogna í ár á Kolaskaga. Hófust þær árið 1956 þar sem notuð voru hrogn úr stofni ættuðum frá suðurhluta Sakhalineyju. Þær tilraunir gáfust illa og það var ekki fyrr en notuð voru hrogn úr norðlægari stofni frá Magadanhéraði í Síberíu sem sjálfbærir stofnar mynduðust í Hvítahafi og Barentshafi. Síðan þá hafa þeir verið að nema land m.a. í Finnmörku í N-Noregi. Stofnarnir í Finnmörku hafa verið vaxandi frá síðustu aldamótum. Reynslan sýnir að hnúðlaxa er helst að vænta hér á landi þegar ártalið er oddatala. Það gæti bent til uppruna frá Finnmörku, en norskar rannsóknir hafa sýnt að oddatöluárgangur hafi fest þar rætur. Ekki er útilokað að hnúðlax geti numið land í íslenskum ám og þess vegna er mikilvægt að veiði slíkra fiska sé vandlega skráð.

 

Veiðimenn sem telja sig veiða slíka fiska, eða aðra þá fiska sem þykja frábrugðnir því sem menn eiga að venjast, geta hafa samband við Hafogvatn. Jafnan dugir góð ljósmynd ásamt upplýsingum um lengd og þyngd til tegundargreiningar.

 

Með slíkar upplýsingar má leita til þess sviðs er sér um ferskvatnslífríki hjá Hafrannsóknarstofnun - Rannsókna- og ráðgjafastofnunar hafs og vatna.

 

Hægt er að senda tölvupóst á gudni.gudbergsson@hafogvatn.is, eða hafa samband með öðrum hætti. Mikilvægt er að slík veiði sé einnig vandlega skráð í veiðibók.

 

Heimildir:

Hnúðlax (Oncorhyncus gorbuscha). Sigurður Már Einarsson tók saman. Fyrst birt árið 2015.

 

Af veraldarvefnum:http://www.veidimal.is/Files/Skra_0063339.pdf. Sótt: 3.9.2015.

Faktaark–Pukkellaks, Oncorhynchus gorbuscha. Af veraldarvefnum: http://www2.artsdatabanken.no/faktaark/Faktaark283.pdf. Sótt: 3.9.2015.

 

Meiri upplýsingar um Kyrrahafslax. (Tekið úr skýrslu Haf- og vatnsrannsókna, Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.)

 

Kyrrahafslax

Í Kyrrahafi eru stundaðar umfangsmiklar veiðar á fimm laxategundum. Heildaraflinn var á bilinu 300- 400 þúsund tonn fram til 1977, jókst síðan jafnt og þétt og hefur haldist nokkuð stöðugur í kringum 1 milljón tonna síðan 1997 (u.þ.b. 500 milljónir laxa). Mest veiðist af pink salmon (41% af aflanum 2016) og síðan koma chum (33%), sockeye (21%), coho (3%) og chinook (1%). Meðalstærð pink er aðeins 1-2 kg en chum verður almennt um 5-7 kg. Coho og sockeye verða almennt 4-6 kg en chinook er risinn í hópnum og veiðist í meðalstærðinni 7-8 kg. Helstu veiðiþjóðirnar árið 2016 voru Rússar (51%), Bandaríkin/Alaska (31%), Japan (13%), Kanada (3%) og Kórea (1%) (Geiger et al. 2011).

 

Hin varanlega aflaaukning á Kyrrahafslaxi sem hófst fyrir fjórum áratugum síðan er talin skýrast að hluta til af hlýnun sjávar en þó einnig að verulegu leyti af gríðarlega umfangsmiklum sleppingum eða hafbeit á eldisseiðum. Undanfarna þrjá áratugi hafa veiðiþjóðirnar sleppt samtals u.þ.b. 5 milljörðum seiða í hafbeit á hverju ári og samið síðan um aflaheimildir sín á milli. Á vesturströnd Bandaríkjanna (Washington og Oregon) er ástand laxastofna mjög slæmt og svo virðist sem útbreiðsla laxastofna hafi almennt færst norðar í kjölfar hlýnandi sjávar. Í Japan er ástandið einnig mjög slæmt vegna áhrifa mengunar og þéttbýlismyndunar. Annars staðar má almennt segja að staða villtra stofna sé nokkuð góð sem sannast á því að heildarlaxveiðiaflinn hefur haldist stöðugur undanfarna tvo áratugi (Noakes and Beamish 2011).

 

Sjókvíaeldi á Atlantshafslaxi er stundað við austurströnd Kanada (u.þ.b. 70 þúsund tonn á ári) og Washington-fylkis í Bandaríkjunum (u.þ.b. 7 þúsund tonn á ári). Mörg dæmi eru um slysasleppingar úr eldiskvíum en Atlantshafslaxinn getur hins vegar ekki æxlast við Kyrrahafslax og því geta ekki myndast blendingar á milli tegundanna. Allt frá öndverðri 19. öld hafa stjórnvöld í Kanada og Bandaríkjunum staðið fyrir fjölmörgum tilraunum með innflutning á Atlantshafslaxi (hrognum og seiðum) í ár og vötn í þeim tilgangi að koma upp sjálfbærum stofni sem gæti staðið undir stangveiði á Atlantshafslaxi. Allar þessar tilraunir hafa hins vegar misheppnast og Atlantshafslaxinn virðist því eiga mjög erfitt með að ná varanlegri fótfestu í Kyrrahafinu, þrátt fyrir mikla aðstoð frá manninum (Noakes and Beamish 2011).