Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
4. september 2017

Haraldur Benediktsson: Laxaseiðaframleiðsla annar ekki eftirspurn – Þykir talað niður til veiðiréttareigenda

Laxeldið hefur verið mjög í sviðsljósinu enda nýkomin niðurstaða starfshóps um stefnumótum í fiskeldi. Þar er lagt til að laxeldi í Ísafjarðardjúpi verði slegið á frest á grundvelli hættumats frá Hafrannsóknastofnun. Hörð viðbrögð hafa orðið á Vestfjörðum vegna þessa.

 

Hagsmunir mismunandi svæða stangast á í Norðvesturkjördæmi. Á Vesturlandi og í Húnavatnssýslum eru margar af bestu laxveiðiám landsins.

 

Hver er afstaða Haraldar Benediktssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, 1. þingmanns kjördæmisins og formanns fjárlaganefndar Alþingis í þessum málum?

"Gleymum því ekki að þessi vinna starfshópsins er að skila okkur því að það er hægt að fara í verulegt fiskeldi. Miðað við hana getum við orðið álíka stór og Færeyingar í þessari atvinnugrein. Ágreiningur er kannski helstur um hraða á uppbyggingu í Ísafjarðardjúpi. Ég er talsmaður þess að við förum ekki hraðar í uppbyggingu en við getum vel haldið utan um," segir Haraldur.

 

Hann segir að sér finnist menn gleyma í þessari umræðu öðrum þáttum sem snerta bæði fiskeldið og hagsmuni laxveiðiréttareigenda.

 

"Í fyrsta lagi þá getum við ekkert farið hraðar í uppbyggingu en nú er. Innviðir fiskeldisins eru ekki sterkari en svo að það er langt í land að næg laxaseiðaframleiðsla sé í landinu til að svara eftirspurn miðað við það sem þegar er búið að gefa út af leyfum til matfiskeldis.  Við þurfum aðeins að staldra við og draga að okkur andann í þessari umræðu. Sjálfur er ég ekki í vafa um að það verður eldi í Ísafjarðardjúpi með tíð og tíma. Þá má heldur ekki gleyma að ræða um aðra áhættuþætti eins og kólnun sjávar – rétt eins og áhættu af erfðablöndun."

 

Veiðitekjur mikilvægar mörgum

Haraldur segist líka vilja draga fram ákveðna þætti þegar talað er um að það séu litlar tekjur af laxveiðum. Hann segir að áhættumat starfshópsins um fiskeldi hafi verið fyrir landið allt, ekki einvörðungu Ísafjarðardjúp og Austfirði.

 

"Við megum ekki gleyma því að lög um veiðifélög eru elsta umhverfislöggjöf okkar. Helmingur hreinna tekna á heimilum í sveitum á Vesturlandi eru vegna nýtingar laxveiðihlunninda. Verulegur hluti tekna byggða um Vesturland og Norðurland eru vegna þeirra. Þessi hlunnindi eru stöðugt að verða verðmætari. Við höfum ekkert leyfi til þess að ganga þannig um þetta að við með einhverjum hætti ógnum afkomu þessa fólks vegna annarra hagsmuna," segir Haraldur.

 

"Þetta snýst ekki um einhverja sportlaxveiðimenn eða auðmenn sem kaupa upp jarðir, heldur það að við erum með fjölda venjulegs fólks í sveitum landsins sem lifir af þessum tekjum sem koma frá laxveiðum. Mér mislíkar sú umræða, og þykir þar talað niður til fólksins sem hefur lifibrauð sitt af laxveiðihlunnindum.  Með því er ég þó ekki að draga úr því að laxeldið geti vissulega skilað miklu fyrir þær byggðir sem eiga í hlut varðandi það. Gangi eldið upp þá fylgja laxeldinu mörg tækifæri og greinin getur breytt miklu fyrir þessar byggðir."

 

Haraldur Benediktsson bætir því svo við að  honum þyki sjálfsagt að taka þá umræðu hvort við séum búin að vera of frjálslynd gagnvart því að auðmenn komi og kaupi upp laxveiðijarðir.

 

"Ég held við ættum alveg að skoða hvort við ættum ekki að endurbæta löggjöf, sem virkar þannig að hún treystir byggðirnar þannig að fólk sitji þessar jarðir, því þær eru hluti af samfélögunum. Þetta er ein af ástæðum þess að lögin um veiðifélög voru sett á sínum tíma. Það mætti líka til dæmis skoða hvort ekki eigi að setja takmarkanir á það hversu langt menn geti gengið í að safna að sér atkvæðum í veiðifélögum. Menn eiga ekki að geta náð undir sig meirihluta í veiðifélögum með uppkaupum og  og þannig sölsað undir sig hlunnindi samfélaganna."

 

Það sem hér fer að ofan er hluti af viðtali Magnúsar Þórs Hafsteinssonar ritstjóra Vesturlands við Harald Benediktsson sem birtist í síðasta tölublaði blaðsins. Það má skoða og lesa í heild hér. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Eyjan.is